Fjöldi sprengja finnst í Boston

Þrír eru látnir af völdum sprengjutilræða við endamark maraþonhlaupsins í Boston í gær og vel á annað hundrað slasaðir, að sögn lögreglu. Hún hefur og staðfest að fjöldi sprengja hafi fundist í borginni, meðal annars við bókasafnið sem kennt er við Kennedy fyrrum forseta Bandaríkjanna.

Í hópi hinna slösuðu eru að minnsta kosti 17 manns með alvarlega ávarka og í lífshættu. Misstu sumir meðal annars útlimi í sprengingunum. Á fjórða tug Íslendinga tók þátt í maraþonhlaupinu og mun engan þeirra hafa sakað.

Enn er ekkert vitað um tilurð sprengnanna eða hvort þar hafi verið að verki hryðjuverkasamtök, en hvorki einstaklingar né samtök  hafa lýst ábyrgð á hendur sér. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur tekið við yfirstjórn rannsóknar á tilræðunum, enda talið að þau gætu hafa verið verk hryðjuverkahópa.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hélt sjónvarpsávarp í gærkvöldi og hét því þar, að hinir seku yrðu dregnir fyrir dóm og látnir gjalda gjörða sinna. „Við munum finna þá og komast að því hvers vegna þeir gerðu þetta,“ sagði forsetinn. Síðar tilkynnti hann um að öryggis- og varnarviðbúnaður landsins hefði verið aukinn vegna tilræðanna í Boston.

Gripið var strax til hertra öryggisráðstafana í Boston og leyfi allra lögreglumanna afturkölluð.

Bætt við klukkan 14:59 - ath einungis tvær sprengjur fundust í Boston, sjá nánar hér


 

Lögregluvörður er við tilræðisstaðina í Boston.
Lögregluvörður er við tilræðisstaðina í Boston. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert