„Erum ánægð með baráttuna okkar“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að baráttuna hafa gengið …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að baráttuna hafa gengið vel og flokkurinn hafi rétt mjög úr sér miðað við vísbendingar úr skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga. mbl.is/Kristinn

„Við að minnsta kosti náðum að bæta verulega við okkur í aðdraganda kosninga ef marka má kannanir. Við erum ánægð með baráttuna okkar. Það er kannski líka mjög mikilvægt fyrir okkur að okkar barátta gekk vel og við vorum samstillt og góður andi. Við erum í sjálfu sér bjartsýn þó að auðvitað töpum við fylgi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna um úrslit þingkosninga.

Vinstri grænir náðu 10,9% atkvæða í kosningunum og fengu sjö þingmenn kjörna en töpuðu sjö þingmönnum frá því í kosningunum 2009. Flokkurinn náði inn þingmönnum í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn náði inn einum manni árið 2009.

„Nei við náðum ekki manni í Suðurkjördæmi sem er mjög bagalegt og finnum auðvitað verulega fyrir því að félagar okkar frá því síðast eru að minnsta kosti í einhverjum þremur hreyfingum í framboði. Að sjálfsögðu finnum við fyrir því líka,“ sagði Katrín.

-Hvað lest þú í þessi kosningaúrslit?

„Auðvitað voru þessi mörgu framboð sem skila sér í sex flokkum á þing sem er óvenjulegt. Framsóknarflokkurinn ótvíræður sigurvegari kosninganna. Það er merkilegt líka að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn bætir einungis við sig um þremur prósentum og er ekki að ná upp í sitt hefðbundna fylgi sögulega. Þannig að þetta eru stórar breytingar. Það liggur alveg fyrir hvað varðar vinstri vænginn að þessi dreifing atkvæða er ekki að koma sérlega vel út fyrir okkur. Við sjáum það á því hve mörg atkvæði falla þar niður.“

Ný ríkisstjórn þarf að hafa langtímahagsmuni í huga

-Ertu bjartsýn á að koma að myndun nýrrar ríkisstjórnar?

„Ætli við sjáum ekki bara hvað setur. En það sem mér finnst kannski aðallega með ríkisstjórnarmyndun, af því að það eru verkefni framundan sem eru snúin, [er að] ég hefði haldið að það væri mjög skýrt að ný ríkisstjórn þyrfti að hafa langtímahagsmuni í huga. Að það mætti ekki bara hugsa til skammtímahagsmuna. Þannig að ég tel að ný ríkisstjórn þurfi að hafa mjög breiða skírskotun. Síðan þurfum við bara að sjá hvað setur í því.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að kjósa í …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að kjósa í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert