Guðni Páll eflist við hverja raun

Kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson heldur ótrauður áfram þrátt fyrir óhapp.
Kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson heldur ótrauður áfram þrátt fyrir óhapp. kayakklubburinn.is

Kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson fékk á sig brot og tognaði á baki er hann var staddur utan við Meðallandssand á miðvikudaginn og verður því næstu tvo dagana í sjúkraþjálfun. Að því búnu vonast hann til þess að geta haldið áfram för sinni hringinn í kringum landið. 

Með róðrinum safnar Guðni Páll fé til styrktar Samhjálp, en hann lagði af stað þann 30. apríl og áætlar að verða um tvo mánuði á leiðinni. Hann hefur nú róið um 320 kílómetra, en alls hyggst hann róa um 2.500 kílómetra.

Ekkert annað í boði en að halda áfram

Hann segir meiðslin óveruleg, en hann reri í gær frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar. „Þetta lítur allt saman mjög vel út, en ég var eitthvað óheppinn. Það er bara þannig í svona verkefni að það er ekkert annað í boði en að halda áfram. Það er engin vél til að setja í gang, það er enginn annar en maður sjálfur sem knýr þetta áfram. En nú fer ég í smá meðferð til að liðka þetta og til að hraða batanum og ég held áfram á miðvikudaginn.“

„Ég hefði líklega þurft að gera smá veðurstopp hvort sem er, því að núna er mjög óhagstætt veður undan Reykjanestánni, mikill sjór og erfitt til róðrar. En þetta óhapp gerði ekkert annað en að efla mig og ég hlakka til að takast á við áframhaldið.“

Hvernig er að róa kajak með tognun í baki? „Það hefur háð mér aðeins í róðri, en með réttum undirbúningi og góðri upphitun gengur þetta alveg. Maður þarf að vera mjög fókuseraður á verkefnið til að halda áfram, þetta er stöðug barátta við hausinn. En auðvitað þarf líka að vera skynsamur og taka ekki of mikla áhættu.“

Guðni Páll á von á að leggja af stað snemma miðvikudagsmorguns frá Landeyjahöfn og þaðan mun hann róa til Eyrarbakka. Hann segir að þá muni hann róa um 50 kílómetra leið og að róðurinn muni taka um átta klukkustundir. 

Hugsar um daginn og veginn og sína nánustu

Spurður að því hvað fari í gegnum hugann meðan á róðrinum stendur segir hann það vera eitt og annað. „Ég hugsa um daginn og veginn, um mína nánustu, vini og fjölskyldu og reyni í rauninni að dreifa huganum eins mikið frá þessu einhæfa verkefni, sem er að róa, en á sama tíma þarf ég að passa mig á því að missa ekki einbeitinguna. Þetta er jafnvægislist. Svo hlusta ég líka mikið á tónlist og hljóðbækur og er langt komin með Feigð [eftir Stefán Mána] og hún fær toppeinkunn hjá mér. Annars held ég að ég sé búin að leysa mörg af vandamálum heimsins í þessum róðri, en það er spurning hvort aðrir fallist á þær lausnir.“

Guðni Páll safnar fé fyrir verkefnið Lífróður Samhjálpar og hér er hægt er að leggja söfnuninni lið.

Guðni Páll sést hér róa inn til Eyja.
Guðni Páll sést hér róa inn til Eyja. mbl.is
Guðni Páll er hér á æfingu utan við Grindavík.
Guðni Páll er hér á æfingu utan við Grindavík. Ljósmynd/Lífróður Samhjálpar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert