Þarf að vera á Íslandi til að fá hæli

Ísland getur ekki veitt fyrrverandi starfsmanni bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, Edward Snowden, hæli á meðan hann er enn staddur í Hong Kong, segir sendiherra Íslands í Kína, Kristín Árnadóttir, í viðtali við South China Morning Post.

Líkt og fram kom á mbl.is í gær greindi Snowden frá því að hann hefði lekið upplýsingum um umfangsmiklar persónunjósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) til fjölmiðla. Segir hann að mestar líkur séu á því að hann sæki um hæli á Íslandi vegna mikils netfrelsis á Íslandi. Snowden er nú í Hong Kong og geta bandarísk stjórnvöld farið fram á framsal hans vegna tvíhliða samnings milli landanna.

Í skriflegu svari Kristínar til kínverska vefmiðilsins kemur fram að tekið sé á málinu í innanríkisráðuneytinu á Íslandi. Þar verði farið yfir mál Snowdens og beiðni hans um hæli.

Upplýsingarnar sem Snowden kom til breska blaðsins Guardian vöktu heimsathygli í síðustu viku og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur staðið í ströngu við að svara fyrir þessar persónunjósnir.

Að sögn Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, hefur engin umsókn um hæli borist frá Snowden. „Og reglan er sú að þú verður að vera á landinu og sækja um hæli í eigin persónu,“ segir Kristín.

Að sögn Smára McCarthy, framkvæmdastjóra IMMI og eins af forystumönnum Pírataflokksins, hafa þau komið boðum til Snowdens um að þau vilji leggja honum lið.

South China Morning Post vísar í sameiginlega yfirlýsingu Smára og Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, þar sem fram kemur að þau muni óska eftir fundi með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, vegna málsins.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að mál Snowdens sé komið til dómsmálaráðuneytisins bandaríska þar sem um glæpsamlegt athæfi sé að ræða.

Í frétt Guardian kemur fram að Snowden hafi flúið til Hong Kong þann 20. maí sl. og haldi til á hóteli. Ástæðan fyrir því að hann fór til Hong Kong sé sú langa hefð sem þar sé fyrir málfrelsi.

Leiðarahöfundur USA Today er jákvæður í garð uppljóstrana Snowdens. Hann hafi þrýst á almenna umræðu um persónunjósnir NSA. Aftur á móti sé ekki hægt að horfa fram hjá því að hann hafi gerst brotlegur við lög.

Umfjöllun Guardian í dag

Sendiráð Bandaríkjanna í Hong Kong.
Sendiráð Bandaríkjanna í Hong Kong. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert