Gestir undir smásjá bresku spæjaranna

AFP

Edward Snowden varð ósáttur við vinnubrögð bandarísku öryggisstofnunarinnar, NSA, og afhenti fjölmiðlum gögn sem hann segir að sanni að stjórnvöld geti komist yfir allar upplýsingar um almenning sem þeim henti hverju sinni. Símtöl, tölvuskeyti, samtöl á samskiptamiðlum, ekkert sé heilagt. Stjórnvöld misnoti yfirburðaaðstöðu sína til að njósna og ógni friðhelgi einstaklingsins.

Furðu hefur vakið hve mikinn aðgang þessi lágt setti tæknimaður hjá einkafyrirtæki sem tók að sér verkefni fyrir opinbera stofnun hefur fengið að leynilegum gögnum. Sjálfur segir Snowden í viðtali við Guardian að eftirlit með þessum aðgangi sé stopult og götótt, hömlur byggist á pólitísku mati en ekki tæknilegum forsendum. Enginn vandi sé að blekkja eftirlitsmenn með „upplognum skýringum“ ef menn vilji nálgast gögn.

En Snowden hefur ekki bara komið eigin ríkisstjórn í vanda. Tveggja daga leiðtogafundi G-8 ríkjanna svonefndu, átta af helstu iðnveldum heims, lauk á Norður-Írlandi í gær og erlendu leiðtogarnir hafa líklega verið ákaflega tortryggnir gagnvart gestgjafanum, David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Ástæðan er að í gögnum Snowdens kemur fram að GCHQ, hleranadeild bresku leyniþjónustunnar, safnaði óspart upplýsingum á fundi árið 2009 í London en þá komu þar saman leiðtogar stærri hóps, G-20.

Sett voru á laggirnar sérstök netkaffihús undir fölsku flaggi, að sögn Guardian, þar var beitt hugbúnaði sem fiskaði lykilorð og tölvuskeyti erlendra embættismanna. Það var gert um leið og skeytin voru send eða rétt á undan, tekin af þeim afrit án þess að sendandi eða móttakandi yrðu varir við nokkurn skapaðan hlut. Einnig var ráðist inn í BlackBerry-tæki í sama tilgangi.

Alls 45 starfsmenn í aðalstöðvum GCHQ fengu það hlutverk að fylgjast allan sólarhringinn með því hver væri að hringja í hvern á fundi fjármálaráðherra aðildarríkjanna fyrir leiðtogafundinn. Gátu yfirmenn GCHQ m.a. notað til þess 15 fermetra skjá sem sýndi öll þessi samskipti með grafískum hætti, jafnóðum og þau fóru fram. Loks fékk stofnunin skýrslur frá NSA sem reyndi að hlera dulkóðuð símtöl Dímítrís Medvedevs, þáverandi Rússlandsforseta.

Ekki bara vegna hryðjuverka

Hvar eru mörkin, geta leyniþjónustumenn leyft sér nánast allt þegar um er að ræða baráttu gegn hryðjuverkamönnum? Meirihluti Bandaríkjamanna virðist vera á þeirri skoðun, ef marka má kannanir. En leyniþjónusta Breta var ekki bara að snuðra til að koma upp um hryðjuverkamenn.

„Markmið GCHQ er að tryggja að upplýsingar sem gagnast [ríkisstjórn Bretlands] við að ná fram æskilegri niðurstöðu meðan hún stýrir G-20 berist viðtakendum á réttum tíma og á þannig formi að þeir geti nýtt sér þær til fulls,“ segir í innri samantekt stofnunarinnar. Í tveim skjölum er beinlínis sagt að slíkar upplýsingar hafi verið afhentar ráðherrum. Allt bendir því til þess að aðgerðir GCHQ hafi fengið fyrirfram samþykki hjá þáverandi forsætisráðherra, Gordon Brown og utanríkisráðherranum, David Miliband.

Edward Snowden er hampað sem hetju víða um heim
Edward Snowden er hampað sem hetju víða um heim
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert