Pólitískur vilji þarf að vera til staðar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpar fundinn í morgun.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpar fundinn í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

„Hvað varðar viðræðurnar á milli Íslands og Evrópusambandsins teljum við rétt að taka skref til baka og sjá hvert við stefnum áður en lengra er haldið,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í ávarpi á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í morgun. Ísland legði eftir sem áður áherslu á gott og náið samstarf við sambandið og Evrópuþjóðir eins og til þessa.

Sigmundur rifjaði upp hvernig stofnað var til umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið á sínum tíma. Fyrri ríkisstjórn hafi verið mynduð af stjórnmálaflokkum sem hefðu kynnt ólíka afstöðu til málsins fyrir kosningarnar 2009 en Vinstrihreyfingin - grænt framboð hafi ákveðið að leyfa umsóknina þrátt fyrir þá stefnu sína að hafna inngöngu í sambandið. Ríkisstjórnin hafi síðan kynnt þá stefnu að ekki væri endilega ætlunin að ganga þar inn heldur aðeins að sjá hvað kynni að vera í boði.

Ræða þurfi hvað ESB snýst í raun um

„Þetta hefur verið kjarninn í umræðum um inngöngu í Evrópusambandið undanfarin fjögur ár. Það hefur verið lítil umræða um hugsanlega kosti og galla þess að ganga í sambandið og hvað það snýst um - hvort það er eitthvað sem Ísland eigi heima í. Umræðan hefur snúist um það hvort við ættum að halda áfram viðræðum um það hvort við fáum eitthvert tilboð frá Evrópusambandinu og sömuleiðis einnig um það hvort innganga í sambandið væri lausn á núverandi stöðu efnahagsmála á Íslandi,“ sagði hann.

Sigmundur sagðist vera þeirrar skoðunar, sem og ríkisstjórn hans, að þetta væri ekki rétta nálgunin þegar sótt væri um inngöngu í Evrópusambandið. Líkt og þingmenn á Evrópuþinginu og aðrir fulltrúar Evrópusambandsins og ríkja innan þess hefðu ítrekað vakið máls á þá snerist slík umsókn um það að umsóknarríkið gerðist aðili að því sem sem sambandið byggðist á og fylgdi lögum þess og reglum. Ekki væri um að ræða viðræður um samruna Evrópusambandsins og Íslands á jafnréttisgrunni.

Skýrsla vonandi lögð fram í haust

„Fyrir vikið tel ég að fara þurfi fram umræða hér á landi um það hvað Evrópusambandið raunverulega snýst um og hvort það sé eitthvað sem Íslendingar vilji verða hluti af eins og það er,“ sagði hann ennfremur. Það væri vitanlega hægt að fá aðlögunarfresti og annað slíkt en ríki sem ætlaði að sækja um inngöngu í sambandið þyrfti að vera skuldbundið til þess að ganga þar inn og fylgja reglum þess og sáttmálum. Sama ætti við um ríkisstjórn slíks ríkis sem þyrfti ennfremur að hafa nauðsynlegan stuðning þjóðarinnar á bak við sig.

„Það sem við þurfum að gera á næstu mánuðum er að ræða um hvað Evrópusambandið raunverulega snýst og ákveða síðan hvort við viljum ganga þar inn. Í kjölfar slíkrar umræðu verður skýrsla lögð fyrir þingið, vonandi í september eða október næsta haust, um viðræðurnar á milli Íslands og sambandsins til þessa og þróun mála innan þess,“ sagði Sigmundur. Evrópusambandið væri jú að ganga í gegnum gríðarlegar breytingar og um það þyrfti að fara fram umræða hér á landi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, ásamt Evrópuþingmönnum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert