Sýrland líklega rætt á fundinum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. AFP

„Ekkert bendir til þess að Obama ætli að nota fundinn sérstaklega til að afla aðgerðum stuðnings. Hins vegar er eðlilega búist við að málið komi upp í umræðum um öryggis og varnarmál.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, spurður hvort búast megi við því að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, nýti vinnukvöldverð með leiðtogum Norðurlandanna sem fram fer í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, annað kvöld til þess að reyna að afla sér stuðnings við mögulegar hernaðaraðgerðir gegn stjórnvöldum í Sýrlandi. Sigmundur mun sitja fundinn fyrir hönd Íslands en hann er í boði Fredriks Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar í tilefni af heimsókn Obama til landsins.

Jóhannes segir ennfremur aðspurður að engar breytingar hafi verið gerðar á dagskrá fundarins vegna þróunar mála í tengslum við átökin í Sýrlandi. Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að megintilgangur fundarins sé „að undirstrika og ræða samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlandanna þegar horft er til sameiginlegra áskorana 21. aldar. Leiðtogarnir munu, meðal annars, ræða samstarf í utanríkismálum, eflingu hagvaxtar og þróunar í heiminum, nýjungar er snúa að hreinni orku og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.“

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ræddi stöðuna í Sýrlandi ásamt sjö öðrum utanríkisráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á fundi í Svíþjóð í gær eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Ráðherrann sagði í samtali við blaðið að Sýrlandsmálið yrði aftur á dagskrá fundarins í dag og þá gæti dregið til tíðinda í málinu. Hins vegar ítrekaði hann að ríkisstjórnin hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort hún styddi hugsanlegar hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandsstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert