Ræða val á framboðslista

Frá stjórnarfundi Varðar í dag
Frá stjórnarfundi Varðar í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Varðar - fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík situr nú á fundi þar sem fjallað er um komandi borgarstjórnarkosningar og val á framboðslista.

Tillaga um að efnt verði til prófkjörs til að velja á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 verður lögð fram á stjórnarfundinum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er lagt til að prófkjörið verði opið skráðum félögum í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, hvort sem þeir hafa borgað félagsgjöld eða ekki.

Flutningsmenn tillögunnar eru formenn fjögurra félaga sjálfstæðismanna í Reykjavík, þ. á m. Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna, og Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna.

„Sú regla hefur almennt gilt hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík að haldin séu prófkjör. Mér finnst að flokksmenn eigi að fá að taka þátt í því að velja frambjóðendur á sinn lista. Í því felst lýðræði en ekki að fámennur hópur velji,“ sagði Sigríður Hallgrímsdóttir, formaður Hvatar í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hún sagði það hafa verið í umræðunni að stjórn Varðar mundi leggja til einhverjar aðrar leiðir til að velja á listann, m.a. leiðtogaprófkjör eða val á lista.

Sirrý benti á að oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna hefði farið til annarra starfa og fyrir lægi að mikil uppstokkun yrði á listanum. „Ef ekki á að fara í prófkjör núna, þá veit ég ekki hvenær,“ sagði Sigríður.

Í stjórninni sitja 25 manns. Annað kvöld kemur fulltrúaráðið saman í Valhöll og ræðir um tilhögun vals á framboðslista. Rétt til setu á þeim fundi eiga tæplega 1.400 fulltrúar.

Vörður kannaði hug flokksmanna til kosningabaráttunnar og undirbúnings fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2010. Könnunin var gerð að loknum kosningunum. Þar var m.a. spurt um heppilegustu leið til að velja á framboðslista. Þá sögðust 47% vilja prófkjör en samtals 53% völdu einhvern annan kost. Af þeim sem svöruðu vildu 26% að fulltrúaráðið veldi á listann, 17% vildu uppstillingu og rúm 10% vildu einhverja aðra ótilgreinda leið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert