Jón Ásgeir vill fá 466 tölvupósta

Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans. Jón Ásgeir …
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans. Jón Ásgeir var þó ekki í dómssalnum í dag. mbl.is

Deilt var um tölvupóstsamskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Lárusar Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Póstarnir eru sagðir sýna fram á að Lárus hafi sem bankastjóri Glitnis verið beittur þrýstingi af hálfu Jóns Ásgeirs til að gerast brotlegur við lög.

Í húsleitum sem gerðar voru vegna rannsóknar á málum Glitnis eftir bankahrun lagði Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, m.a. hald á 466 tölvupósta sem fóru milli Lárusar Welding fyrrverandi forstjóra Glitnis og Jóns Ásgeirs, sem var einn aðaleigandi bankans á tímabilinu apríl 2007 - september 2008.

Orðfár Jón Ásgeir

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, krefst þess að fá afhent afrit af öllum póstunum 466. Sagðist hann m.a. fyrir dóminum í morgun telja að það ætti ekki að taka nema stutta stund að prenta póstana út eða hlaða inn á minniskubb. 

„Miðað við það sem ég þekki til skjólstæðings míns er hann afar orðfár og segir yfirleitt ekki meira í tölvupósti en já eða nei,“ sagði Gestur. Ekki kom fram hvers vegna Jón Ásgeir hefur ekki aðgang að tölvupóstsamskiptum sem hann sjálfur stóð í.

Við upphaf þinghalds í morgun hringdi Gestur í verjanda Lárusar Welding og fékk það staðfest að Lárus styður kröfuna um að Jóni Ásgeiri verði afhentir allir póstarnir. Sérstakur saksóknari hafnar hins vegar kröfunni, þar sem aðeins 70 tölvubréf séu lögð fram sem málsgögn.

Beitti Lárus fortölum og þrýstingi

Póstsamskiptin varða Aurum-málið s.k., sem höfðað er gegn Jóni Ásgeiri, Lárusi og tveimur öðrum starfsmönnum bankans m.a. fyrir umboðssvik þegar eignalausu einkahlutafélagi var veitt 6 milljarða króna lán án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu, til að fjármagna kaup á hlut í Aurum Holdings Limited.

Jón Ásgeir er sakaður um að hafa, í krafti áhrifa sinna í Glitni, beitt Lárus fortölum og þrýstingi um að veita lánið, Jóni sjálfum til hagsbóta. Tölvupóstarnir 70 eru lagðir fyrir dóminn sem sönnun um þennan þrýsting.

Í kærunni á hendur Jóni Ásgeiri kemur fram að hann hafi haft mikil, bein og óeðlileg afskipti af daglegum rekstri Glitnis og ítök í starfsmönnum bankans.

Hafa ekki þýðingu í málinu

Sérstakur saksóknari sagði fyrir dóminum í morgun að þeir póstar sem lagðir hafa verið fram séu þeir sem taldir eru hafa þýðingu fyrir málið. Verjandi Jóns Ásgeirs hafi þegar fengið þá pósta, en vilji líka fá þá sem lögregla ákvað að gera ekki að gögnum málsins.

Benti hann á að Gestur Jónsson hafi upphaflega gert kröfu um það annað hvort að fá gögnin afhent eða fá aðgang að þeim. Fallist hafi verið á að þeir Jón Ásgeir fengju heimild til að kynna sér gögnin, þ.e. mæta í húsnæði embættis sérstaks saksóknara og lesa póstana án þess þó að hafa þá á brott með sér.

Sérstakur saksóknari sagði að ef afhenda ætti allt gagnamagnið útheimti það vinnu af hálfu lögreglu sem bæri þá skylda til að fara aftur yfir öll bréfin 466 og meta hvort þar væru einhver einkamál.

Sagðist hann telja að sú aðferð sem hann hefði lagt til, þ.e. að Gestur og Jón Ásgeri fái að kynna sér gögnin, væri mun skilvirkari og þjálli fyrir dóminn því annars þyrfti að leggja öll gögnin fram. Bréfin hefðu ekki þýðingu í málinu, að það væri ekki hlutverk verjandans að rannsaka málið upp á nýtt.

Fáránleiki Lísu í Undralandi

Gestur Jónsson vísaði á móti bæði í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, og 37. gr. sakamálalaga þar sem segir að verjandi skuli fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans.

Sagði hann að krafan snúist í raun um að fá að meta hvort hlutlægni hafi verið beitt í vali á því hvað af gögnunum varði málið.

Gestur sagði að þar sem hluti þessara gagna hafi verið lagður fyrir dóminn eigi Jón Ásgeir rétt á að fá að sjá þau öll. Sagði hann málareksturinn jafnast á við fáránleikann í sögu Lísu í Undralandi, þar sem það væri mjög erfitt fyrir hann að eiga að segja hvað það væri í gögnunum sem skipti máli, án þess að fá að sjá þau fyrst.

Tafir á málarekstrinum

Dómari í Aurum-málinu hefur áður lýst áhyggjum af því að málareksturinn dragist. Ákæran var gefin út í desember 2012 og var málið þingfest í Héraðsdómi í byrjun janúar 2013.

Fram kom í byrjun september að Gestur Jónsson telur óraunhæft að hægt verði að flytja málið í haust og að líklega verði það ekki fyrr en í byrjun árs 2014.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í héraðsdómi.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í héraðsdómi. mbl.is/Styrmir Kári
Lárus Welding er sammála kröfunni um að Jón Ásgeir fái …
Lárus Welding er sammála kröfunni um að Jón Ásgeir fái afhent öll tölvupóstsamskipti þeirra á milli sem lagt var hald á við húsleit. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert