„Ekki verið að hlífa Ríkisútvarpinu“

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki svo að Ríkisútvarpinu hafi verið hlíft við niðurskurði,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Hann segir að RÚV hafi úr um 5% minni fjármunum að spila á næsta ári en í ár og stofnunin þurfi því að gæta verulegs aðhalds í útgjöldum.

Í frumvarpinu er lagt til að útvarpsgjaldið hækki um 3% eins og önnur krónutölugjöld.  Áætlaðar tekjur af útvarpsgjaldi á næsta ári eru 3.910 milljónir, en stofnunin fær hins vegar 3.195 milljónum. Þarna munar því 715 milljónum.

Á síðasta voru voru samþykkt ný lög um Ríkisútvarpið, en þau takmörkuðu nokkuð möguleika stofnunarinnar til að afla sér auglýsingatekna. Að mati stjórnenda RÚV skerða þessar takmarkanir tekjur RÚV um 395 milljónir. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að RÚV fái 215 milljónir til að mæta þessum tekjumissi. Eftir standa því 180 milljónir sem RÚV þarf að bregðast við með lækkun útgjalda. Aðhaldskrafan er því um 5,6%.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að ekki yrði skorið niður hjá RÚV á næsta ári. Illugi segir þetta ekki rétt, en þennan misskilning megi að nokkru leyti skrifa á texta frumvarpsins.

„Það er ekki svo að Ríkisútvarpinu hafi verið hlíft við niðurskurði. Þvert á móti þá er gerð nokkuð rík aðhaldskrafa þar sem að möguleikar Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna á auglýsingamarkaði voru skertir með nýjum lögum sl. vor. Það eru ekki settir fjármunir til baka í samræmi við þær tekjur sem stofnunin telur að hún hafi misst.

Sé horft til þessa má gera ráð fyrir að stofnunin hafi rúmlega 5% minni fjármunum úr að spila á næsta ári heldur en hún hafði á þessu ári,“ segir Illugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert