Hagræðingarhópur en ekki niðurskurðarhópur

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar er ekki hugsaður sem niðurskurðarhópur. Hópurinn á að horfa til þess hvernig hægt er að gera hlutina með auknu hagræði. Það þurfi ekki að þýða beinar niðurskurðaraðgerðir heldur sé um viðvarandi verkefni að ræða, að auka hagkvæmni. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

„Það þarf ekki að þýða beinar niðurskurðaraðgerðir heldur á þetta að vera okkar viðvarandi verkefni, að auka hagkvæmnina í opinberri þjónustu með nákvæmlega sama hætti og einkageirinn er stanslaust að leita leiða til að gera hlutina með hagkvæmari hætti,“ sagði Bjarni sem hélt í morgun erindi á fundi um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár.

Til fundarins var boðað af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Þar var jafnframt rætt um stöðu ríkisfjármála og hvaða breytingar væru framundan í opinberum rekstri.

Í fjárlögum hvers árs væri almennt gerð veltutengd hagræðingarkrafa. Spurt hafi verið hvort raunhæft væri að hafa enn og aftur uppi hagræðingarkröfur í tengslum við fjárlagagerð fyrir 2014. Þessi spurning væri skiljanleg en lagt hafi verið upp með hagræðingarkröfu á öll ráðuneyti fyrir um 1,5%. „Það skilaði sér á endanum, eftir samskipti við ráðuneytin, í hagræðingu upp á innan við 1%.

Sumir kynnu að segja að þarna hafi fjármálaráðherrann verið alltof linur við ráðherrana. En við fórum svo í aðrar sértækar hagræðingaraðgerðir, sem skiluðu enn meira aðhaldi heldur en þessu veltutengda,“ sagði Bjarni. Veltutengda aðhaldið væri í mörgum öðrum ríkjum fastur liður upp á 1% á ári hverju, t.d. í Danmörku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert