Leiðréttingin geti misst marks

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst enn þá spurningum ósvarað. Þess vegna fórum við kurteislega fram á það í þinginu að þingmenn fengju góða kynningu á aðgerðunum, þingflokkarnir. Við þurfum að spyrja ýmissa spurninga, eins og hvaða frumvörp þurfa að koma fram og hvenær þau þurfa að koma fram,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurður um afstöðu sína til boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar í skuldamálum.

Sem kunnugt er á að fjármagna aðgerðirnar með því að gera úttektir á séreignarsparnaði að upphæð 70 milljarðar króna skattfrjálsar og með sköttum á banka og slitastjórnir sem eiga að afla 80 milljarða króna. Saman eiga heimilin að geta lækkað höfuðstól lána um 150 milljarða króna með þessum hætti. Niðurfærsla verðtryggðra íbúðalána á að koma til framkvæmda um mitt næsta ár, en samkvæmt heimildum mbl.is verður séreignarleiðin í boði frá miðju næsta ári fram á mitt ár 2017.

Fjármagnað í gegnum ríkissjóð

Guðmundur segir ríkissjóð því fjármagna aðgerðirnar. 

„Það sem mér finnst vera mestu tíðindin í þessu er að aðgerðirnar eru fjármagnaðar í gegnum ríkissjóð. Þá vakna spurningar hvað við erum að fá fyrir peninginn. Hvort þessum peningum sé vel varið eða hvort þeim geti verið betur varið í annað í þágu fólks. Í þágu uppbyggingar í fjársveltu samfélagi eftir langvarandi kreppu.

Þarna eru nýir skattar sem fara inn í ríkissjóð. Hann er þannig staddur að honum veitir ekkert af tekjum, jafnvel þótt það yrði ekki farið í þessar aðgerðir. Hann er skuldum hlaðinn. Það er mjög mikil fjárþörf í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, vegakerfinu og hjá öllum innviðum. Það er búinn að vera langvarandi niðurskurður af augljósum ástæðum. Þessi verkefni hlaðast því upp og eru byrjuð að koma í bakið á okkur.“

Málið verði skoðað í heild

Guðmundur telur því tilefni til að fara vandlega yfir málið.

„Ég hvet því til þess að allt sé rætt í heildarsamhengi. Þetta virðist mér vera aðgerðir sem koma örugglega mörgum til góða, en eins og efnahagslífið er, óstöðugt og verðbólgan töluverð, er höfuðstóllinn fljótur að fara upp í mörgum tilvikum til jafns við það sem er afskrifað af lánum.

Afskriftirnar geta því misst marks. Það eru ábyggilega miklar væntingar í gangi. Það verður dregið frá það sem fólk hefur þegar fengið,“ segir Guðmundur og vísar til niðurfærslna vegna 110%-leiðarinnar og sérstakra vaxtabóta.

„Þannig að margir fá örugglega mjög lítið. Svo eru aðrir sem verða eftir sem áður í greiðsluvanda. Eins og Umboðsmaður skuldara hefur lengi bent á er umtalsverður hópur fólks sem skuldar ekkert mikið í krónutölu en er með mjög litla greiðslugetu. Þetta hjálpar þeim hópi mjög lítið,“ segir Guðmundur Steingrímsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert