Vísar viðræðum til sáttasemjara

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins kom saman til fundar í húsakynnum ríkissásttasemjara í …
Samninganefnd Starfsgreinasambandsins kom saman til fundar í húsakynnum ríkissásttasemjara í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins ákvað í dag að vísa kjarasamningsviðræðum til ríkissáttasemjara. SGS hefur ákveðið að kalla saman aðgerðahóp, en Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, segir menn þurfa að huga að gerðum ef viðræður dragist fram yfir áramót.

Samninganefnd SGS átti fund í dag með Samtökum atvinnulífsins. Lítill árangur varð á fundinum.

„Samtök atvinnulífsins vilja ekki ræða við okkur um krónutöluhækkun. Það varð til þess að það slitnaði upp úr sameiginlegum viðræðum í gær. Við leggjum áherslu á blandaða leið, að laun hækki bæði um krónutölu og um prósentur. Það kemur okkar fólki best. Þeir vilja bara tala um prósentur og við erum ekki að tala um það háar prósentur að hækkunin verður lítil þegar hún leggst við lægstu launin. Það ber því of mikið á milli og viljum fá einhvern til að stjórna viðræðum,“ segir Björn.

Björn segir að SGS sé búið að skipa aðgerðahóp. Hann sé að fara yfir stöðuna og hvar séu helstu sóknarfæri í sambandi við aðgerðir ef viðræður dragist fram yfir áramót.

„Í kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem lögð var fyrir Samtök Atvinnulífsins í byrjun nóvember var lögð áhersla á hækkun lægstu launa. Lögð var til blönduð leið prósentu og krónutöluhækkana til að koma í veg fyrir það ranglæti að lægst launaða fólkið fengi minnst og það hæst launaða mest. Lagt var til að við lægstu taxtana bættust 20.000 krónur og þykir mörgum það vera hógvær krafa. Samtök atvinnulífsins hafnaði kröfunum samstundis.

Í kjölfarið ákvað samninganefnd Starfsgreinasambandsins að freista þess að fara í viðræður við SA í samfloti við önnur landssambönd undir hatti samninganefndar ASÍ. Nú er komið í ljós að SA leggst ennþá eindregið gegn tilraunum til að hækka lægst launaða fólkið á vinnumarkaði með krónutöluhækkunum og við það getur hvorki samninganefnd ASÍ né samninganefnd SGS unað.

Samninganefnd SGS hefur því ákveðið að vísa kjarasamningsviðræðum til ríkissáttasemjara enda er talið vonlítið um frekari árangur í samningaumleitunum. Jafnframt verður aðgerðarhópur SGS kallaður saman í framhaldinu,“ segir í tilkynningu frá samninganefnd SGS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka