Ósátt við vinnubrögð stjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ef ríkisstjórnin vill tileinka sér betri samskipti væri t.d. hægt að senda þingmönnum skýrsluna en ekki bara fjölmiðlum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Facebook-síðu sinni í dag. Þar gagnrýnir hún að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið sé komin til fjölmiðla en ekki til þingmanna.

„Ég les um þessa ESB-skýrslu hér á Facebook hjá aðstoðarmanni forsætisráðherra og svo sé ég hana í fjölmiðlum,“ segir Katrín en skýrslan var rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun og verður dreift á Alþingi eftir hádegi auk þess sem hún verður birt á vef þingsins. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, segir í athugasemd að þar sem skýrslan sé nokkur hundruð blaðsíður með viðaukum ætti að gefa þingmönnum nokkurra daga svigrúm til þess að kynna sér efni hennar til hlítar áður en umræða færi fram á Alþingi. Segir hann að „annað væri hálfgert grín.“

Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, tekur í sama streng og Katrín á Facebook-síðu sinni. Hann hafi lesið um skýrsluna í fjölmiðlum. „Við í stjórnarandstöðunni höfum ekkert séð og getum ekki tekið neinn þátt í efnislegri umræðu. Svona eru nú vinnubrögðin á Íslandi í dag,“ segir hann. Hann bætir síðan við í athugasemd skömmu síðar að hann hafi fengið skýrsluna í hendur frá fréttamanni. Í framhaldi er hann spurður að því hvort þar með hafi skýrslunni ekki verið lekið í hann.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert