Fruntagangur sem lesið sé um

Árni Páll Árnason á Alþingi í dag.
Árni Páll Árnason á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Erlendir fjölmiðlar líta svo á að verið sé að gera aðför að Seðlabanka Íslands með því að auglýsa stöðu seðlabankastjóra lausa til umsóknar. Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og vísaði til þess að fjallað hefði verið um málið í tugum erlendra fjölmiðla. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra bað hann að líta sér nær.

Bjarni spurði Árna á móti hvað það hefði verið þegar Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hringdi í þáverandi seðlabankastjóra og bað þá að víkja úr sætum sínum. Þegar þeir gerðu það ekki hefði hún lagt fram frumvarp á Alþingi til að koma þeim frá. Frumvarp sem hún hefði sagt nauðsynlegt til að efla traust á Seðlabankann.

Hann sagði að með því hefði Jóhanna lýst yfir vantrausti á seðlabankastjórana. Stöðurnar hefðu ekki verið lausar eins og nú væri með núverandi seðlabankastjóra. Það hefði engin greinargerð legið fyrir.

Það að nú sé verið að gera því skóna að vegið sé að sjálfstæði Seðlabanka Íslands kalli á skýringu á þessari sögu, sagði Bjarni enn fremur.

Umræðan fór fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma og notaði Árni Páll seinni ræðu sína til að ræða meira um Evrópusambandsmál en minna um Seðlabankann. Hann sagði þó að fjármálaráðherra og forsætisráðherra yrðu að átta sig á að lesið væri um „fruntagang þeirra“ í útlöndum. Umheimurinn sjæ hvað verið væri að gera hér á landi og litið væri svo á að verið væri að gera aðför að Seðlabankanum.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert