Yfir 20 þúsund undirskriftir

Frá mótmælum á Austurvelli í gær en á fjórða þúsund …
Frá mótmælum á Austurvelli í gær en á fjórða þúsund tóku þátt í mótmælum fyrir utan þinghúsið. mbl.is/Golli

Yfir tuttugu þúsund manns hafa skrifað undir á vefnum Thjod.is þar sem óskað er eftir því að almenningur fái að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga aðildarumsóknina að ESB til baka er á dagskrá Alþingis í dag.

Það ræðst hins vegar af gangi umræðna um skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu aðildarviðræðnanna nákvæmlega hvenær hún verður tekin fyrir að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Umræða um skýrsluna stóð yfir fram undir miðnætti og sakaði utanríkisráðherra stjórnarandstöðuna um að stunda „tilbrigði við málþóf“ þegar óskað var eftir að hann væri í þingsalnum við umræðurnar. Þegar þingfundi lauk laust fyrir miðnætti voru 13 þingmenn enn á mælendaskrá um hana.

Þingfundur hefst klukkan 13:30 í dag en klukkan 14 verða sérstakar umræður um málefni Seðlabankans. Málshefjandi er Katrín Jakobsdóttir og til andsvara verður fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert