Einar Örn er líka í Ghostigital

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins í Reykjavík.
Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, lét bóka á fundi borgarráðs í dag að hann væri „líka í hljómsveitinni Ghostigital“. Þetta gerði hann í kjölfar bókunar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem má m.a. skilja þannig að Besti flokkurinn og Björt framtíð sé einn og sami flokkurinn.

Bókanirnar tengjast umræðu á hverfisskipulagi Grafarholts og Úlfarsárdals. Sjálfstæðismenn í borginni gagnrýna m.a. að hverfaþjónusta sé af skornum skammti og að íbúar Úlfarsárdals séu mótfallnir nýsamþykktu aðalskipulagi og vilji meiri byggð í hverfinu. 

Í bókun Sjálfstæðisflokksins segir svo: „Í september sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að kannaðir yrðu tiltækir kostir til að bæta umferðartengingar við Grafarholt, íbúum hverfisins til hagsbóta og með það að markmiði að fjölga möguleikum Strætó bs. á að bæta þjónustu við hverfið. Borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar felldi umrædda tillögu.“

Í framhaldinu létu borgarráðsfulltrúar Besta flokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

„Í ljósi þess að í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vísað til borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar vilja borgarráðsfulltrúar Besta Flokksins í borgarráði ítreka að þeir voru kosnir í borgarstjórn af lista Besta Flokksins.

Þeir hafa ekki sagt sig úr Besta flokknum, og sitja enn í umboði Besta flokksins. Þeir munu einnig klára þetta kjörtímabil sem borgarfulltrúar Besta flokksins, eins og þeir voru kosnir til.“

Einar Örn lagði svo fram svohljóðandi bókun: „Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, óskar að bóka að hann er líka í hljómsveitinni Ghostigital.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert