Heimilt að loka Geysissvæðinu

Ferðamenn á Geysissvæðinu í Haukdal.
Ferðamenn á Geysissvæðinu í Haukdal. mbl.is/Kristinn

Gjaldtaka hófst við Geysissvæðið um klukkan níu í morgun. Hún hefur hins vegar ekki verið snurðulaus því ferðaþjónustufyrirtæki, s.s. rútufyrirtæki, hafa neitað að rukka ferðmenn um gjaldið og hefur því hluta gesta verið hleypt inn á svæðið án þess að gjald hafi verið greitt fyrir.

Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, segir í samtali við mbl.is að ferðaþjónustufyrirtæki séu ósátt við gjaldtökuna. „Þeim gengur mjög illa að skilja okkar sjónarmið.“ Hann segir að félagið sé í fullum rétti til að loka svæðinu.

Saka ferðaþjónustuna um einelti

„En auðvitað viljum við eiga samstarf við þetta fólk, en þetta fólk [ferðaþjónustan] leggur okkur í einelti - ég er farinn að nota það orð - í einhverjum ofstopa og vill ekki skilja okkar sjónarmið,“ segir Garðar og vísar til þess að álagið á svæðið sé orðið of mikið og menn verði því að grípa til þessara aðgerða til að bæta ástandið.

Hann tekur fram að Landeigendafélagið sé félagi í Samtökum ferðaþjónustunnar. „Þetta fólk talar gegn okkur og maður spyr sig: „Rúma þessi samtök ekki nema eina skoðun? Eru þetta orðnar sovéskar skoðanir í þessu markaðsdrifna fyrirbrigði,“ spyr Garðar.

Eigendur Geysissvæðisins hafa bent á að þeir hafi í áranna rás borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu. 

Kostar peninga að halda úti þjónustu

Spurður nánar út í gjaldtökuna í morgun segir Garðar að starfsmenn Geysissvæðisins hafi skráð niður þær rútur sem hafa komið og þann ferðamannafjölda sem hefur farið inn á svæðið án greiðslu. 

„Svo eru fjölmargir sem greiða og gera það með glöðu geði,“ segir Garðar um þær 600 kr. sem eru innheimtar af 17 ára og eldri sem vilja skoða svæðið.

Hann segir ennfremur að það kosti peninga og mannskap þurfi til að halda úti þjónustu á ferðamannastöðum. „Þetta er svo mikill fjöldi orðinn [af ferðamönnum], þessi stigmögnun sem hefur orðið frá 2008, hún breytir þessu öllu saman,“ segir Garðar. 

Hann segir að staðan verði tekin í dag varðandi framhaldið, en hann ítrekar að sýslumaðurinn á Selfossi hafi heimilað landeigendum að innheimta gjald á svæðinu. „Hann heimilar okkur hreinlega að loka svæðinu í nafni náttúruverndar og vegna þess að þetta er eign okkar,“ segir Garðar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert