Hafa áhyggjur af stúdentum

Háskóli Íslands aðalbygging
Háskóli Íslands aðalbygging mbl.is/Ómar Óskarsson

Atkvæðagreiðsla kennara við Háskóla Íslands um verkfallsboðun hófst í morgun. Ef af verður munu kennarar leggja niður störf á hefðbundnum próftíma, frá 25. apríl til 10. maí. Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, segir að fjölmargir hafi mætt og greitt atkvæði í morgun.

Aðspurður hvernig hugur sé í kennurum segir hann mikla samstöðu vera um að eitthvað þurfi að gera, og að þetta sé leiðin til þess að knýja fram launaleiðréttingu. Hann segir að kennarar hafi hins vegar áhyggjur af stúdentum og muni berjast fyrir því að ná samkomulagi, þannig að hægt verði að ganga frá málinu án þess að það bitni á nemendum. „Flestir eru þó einnig meðvitaðir um að ef það verður ekki hægt að ráða hæft fólk hingað vegna lélegra launakjara mun það einnig koma niður á stúdentum.“

Jörundur var ekki reiðubúinn til þess að gefa upp í hverju launakröfur kennara nákvæmlega fælust þar sem málið væri enn á viðkvæmu stigi. „Við teljum að okkar hópur standi mun verr en margir sem eru í sambærilegri stöðu,“ segir hann.

Aðgerðirnar ná til kennara og háskólamenntaðs stjórnsýslufólks við Háskóla Íslands, en sá hópur telur um þúsund manns. Jörundur segir að engin próf verði haldin við háskólann, verði af verkfallinu, þó svo að aðrir en félagsmenn sjái um stundakennslu í sumum námskeiðum. „Prófstjóri myndi fara í verkfall. Það má ekki halda próf án þátttöku kennslusviðs og prófstjóra og prófin má einungis halda á ákveðnum tíma,“ segir Jörundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert