Hrapaði í hafið og fannst aldrei

Baksíða Morgunblaðsins 12. september árið 1990.
Baksíða Morgunblaðsins 12. september árið 1990.

Þota Faucett Airlines, sem flogið var frá Keflavíkurflugvelli 11. september árið 1990, varð eldsneytislaus og hrapaði í hafið undan ströndum Grænlands. Flak vélarinnar fannst aldrei en um borð voru 15 manns, starfsmenn flugfélagsins og ættingjar þeirra.

Frá árinu 1948 hafa 87 flugvélar, sem taka fleiri en 14 farþega, horfið. Flestar þeirra hafa enn ekki fundist, samkvæmt upplýsingum samtakanna Aviation Safety Network. Ein þessara horfnu véla flaug frá Kelfavík í átt til Kanada í júlí árið 1970, eins og mbl.is hefur þegar rifjað upp. Um borð í þeirri vél voru 23. Brak úr vélinni fannst um haustið. 

Malta - Mílanó - Keflavík - Gander - Míamí

Vél Faucett Airlines var af gerðinni Boeing 727, sömu tegund og fyrsta þota Íslendinga, og flaug undir merkjum Air Malta. Fauchett Airlines var perúskt flugfélag. Þotan var á leið frá Möltu til Miami í Bandaríkjunum. Hún lenti á Keflavíkurflugvelli til að taka eldsneyti en þangað kom hún frá Mílanó.

Í frétt Morgunblaðsins 12. september árið 1990, segir að Ingþór Ólafsson, starfsmaður Olís, hafi afgreitt vélina og rætt við flugmennina í Keflavík. „Þeir voru hressir og hissa á því að ekki væri kaldara á Íslandi.“

Vélin tók á loft frá Keflavík kl. 13.16 og var ferðinni þá heitið til Nýfundnalands. Átti hún að lenda í Gander-flugvelli. Áætlað var að flugið myndi taka 3 klukkustundir og 38 mínútur. Talið er að flugmennirnir hafi villst af leið.

Eldsneytislaus yfir Norður-Atlantshafi

Kl. 17.55 höfðu kanadískir flugumsjónarmenn samband til íslands og óskuðu upplýsinga um flugáætlun vélarinnar. Sagt var að flugmenn vissu ekki um staðsetningu sína og að eldsneyti væri orðið lítið. Kanadísk flugumsjón heyrði síðast til vélarinnar kl. 18.23 hinn 11. september. Þá var vélin orðin eldsneytislaus og hafði lækkað flugið úr 10 þúsund fetum.

Gervitungl námu neyðarmerki frá vélinni og talið var að hún hefði nauðlent í sjónum. Þrátt fyrir umfangsmikla leit sem fjöldi flugvéla tók þátt í, fannst flak vélarinnar aldrei.

Kort/Elín Esther
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert