Mikilvægt að það verði ekki „feilskot“

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur áhyggjur af því hvað því miðar hægt að afnema gjaldeyrishöftin. „Mér finnst ríkisstjórnin hafa lítið gert, að minnsta kosti hef ég sem alþingismaður fengið ákaflega litlar upplýsingar um hvað það er sem er að gerast í málinu. 

Mér finnst sem ríkisstjórnin hafi tapað mjög miklum tíma og varla er það í þágu íslenskra hagsmuna,“ sagði hann í ræðu á Alþingi í dag.

Hann benti á að ríkisstjórnin hefði sagt að afnám gjaldeyrishafta væri eitt mikilvægasta úrlausnarefnið sem hennar biði og var hann sammála því.

„Ég vil líka rifja það upp að hæstvirtur forsætisráðherra sagði í yfirlýsingu árla kjörtímabilsins að þess væri að vænta að hann eða ríkisstjórnin myndi leggja fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta fyrir lok september.

Bólar ekkert á áætluninni

September er kominn og farinn og það bólar ekki neitt á þessari áætlun,“ sagði Össur.

Mál eins og afnám gjaldeyrishafta sé af þeirri stærðargráðu að það sé mjög mikilvægt að um það myndist mjög breið samstaða.

„Það er ekki hægt að mynda hana nema þingið fái einhverjar upplýsingar og sé með í ráðum. Ég geri mér vel grein fyrir því sem ríkisstjórnin hefur sagt, að þetta sé viðkvæmt mál og það þurfi að ganga varfærnislega um það. En þá vil ég líka undirstrika það að nefndir þingsins hafa sýnt það að þær geti unnið undir þeim trúnaði sem krafist er af þeim,“ sagði Össur jafnframt.

„Ég vil líka rífja upp að hæstvirtur fjármálaráðherra lofaði því hér í ræðu 25. febrúar að það yrði haft þverpólitískt samráð. Sömuleiðis sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri fyrir skömmu að þegar Íslendingar réðust í afnám gjaldeyrishafta, þá hefðu þeir bara eitt skot í byssunni.

Og ég tel að það sé mjög mikilvægt að það verði ekki feilskot vegna skorts á samráði af hálfu ríkisstjórnarinnar,“ sagði Össur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert