Sinnir lögbundnu hlutverki sínu

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segir í samtali við mbl.is að Orkustofnun sé einfaldlega að framfylgja sínu lögbundna hlutverki. Hann hefur ákveðið að boða fulltrúum stofnunarinnar til opins fundar í umhverfis- og samgöngunefnd.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að innlegg Orkustofnunar til frekari vinnu á sviði verndar annars vegar og mögulegar nýtingar á virkjunarkostum hins vegar vekti furðu. Með þessu útspili væri öll vinnan að rammaáætluninni sett í fullkomið uppnám.

Eins og greint hefur verið frá hefur Orkustofnun sent verkefnastjórn um rammaáætlun lista yfir þá virkjanakosti sem stofnunin hyggst leggja fram tillögur um. 91 virkjanakostur er á listanum, þar af eru 28 nýir.

„Orkustofnun ber að vinna eftir þeim lögum sem standa að henni. Þau eru annars vegar um Orkustofnun sjálfa, frá árinu 2003, og hins vegar um rammaáætlun frá 2011. Þar er kveðið skýrt á um það að hún eigi í rauninni að fjalla um alla þá orkukosti sem uppi eru á landinu, óháð því hvort þeir fari í vernd, nýtingu eða biðflokk,“ segir Höskuldur.

Hann bendir jafnframt á að um sé að ræða lög sem síðasta ríkisstjórn hefði getað breytt á síðasta kjörtímabili ef hún hefði haft áhuga á. „En hún ákvað að gera það ekki,“ segir hann.

Hann nefnir einnig að orðið „virkjunarkostur“ sé villandi í þessu samhengi. „Það má skilja það þannig að þarna sé verið að taka ákvörðun um hvað eigi að virkja í framtíðinni. Svo er hins vegar alls ekki.“

Fulltrúum Orkustofnunar hefur verið boðið til fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og segist Höskuldur hafa lagt það til að hann verði opinn fjölmiðlum.

Frétt mbl.is: „Ég er gjörsamlega gáttaður“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert