Vildi að Ómari yrði vikið úr sal

Ómar Stefánsson.
Ómar Stefánsson.

Bæjarfulltrúarnir Aðalsteinn Jónsson og Ómar Stefánsson lentu í hávaðarifrildi á fundi bæjarstjórnar Kópavogs á fimmta tímanum í dag. Gerðist það á meðan Aðalsteinn var í ræðustól og viðraði efasemdir sínar um að auka bæri starfshlutfall bæjarfulltrúa í 100% úr 27% starfshlutfalli.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, mælti fyrir tillögunni. Hann sagðist reyndar ekki ætla að taka afstöðu til þess hversu hátt kaupið ætti að vera og sagði það hafa verið mistök í tölvupósti sem hann sendi út að miða ætti við 100% þingfararkaup, eða um 680 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Hann sagði að starf bæjarfulltrúa yrði að vera hægt að stunda þannig að hægt væri að funda þegar mál kæmu upp, ekki að bæjarfulltrúar væru að hlaupa frá aðalstarfi sínu eða fjölskyldu til þess. Hann sagði að umfang starfsins hefði margfaldast og sveitarfélögin hefðu meðal annars tekið á sig grunnskólana og málefni fatlaðra.

Þetta væri því spurning um hvort starf bæjarfulltrúa ætti að vera 100% starf eða tómstundastarf. Það væri lykilatriði að menn ákvæðu hvort sinna ætti starfinu í áhugamennsku, sem þýddi að embættismannakerfið yrði umtalsvert sterkara en það pólitíska.

Á annað hundrað milljónir í kostnað

Aðalsteinn, sem er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, bað um að málinu yrði frestað því vinna þyrfti kostnaðarmat. Hann hefði fengið ófullnægjandi kostnaðarmat upp á 77 milljónir króna. „Ég vil fá að vita hvað það kostar að hafa ellefu bæjarfulltrúa með öllu og hvað það kostar að fara úr 27% þingfararkaupi upp í 100% starf.“

Hann sagðist hafa reiknað þetta lauslega sjálfur og samkvæmt því færu laun bæjarfulltrúa úr 2,3-2,6 milljónum króna á ári upp í 8,1 milljón króna. Það væru 90 milljónir króna. Þá mættu bæjarfulltrúar ekki vera á bæjarskrifstofunni, því ekki mætti anda ofan í hálsmálið hjá starfsfólki. Því þyrfti að finna húsnæði fyrir bæjarfulltrúa og varla ætti sama húsnæðið að hýsa þá alla, enda gæti meirihlutinn varla verið í sama herbergi.

Aðalsteinn sagðist því telja að kostnaðurinn myndi hlaupa á annað hundrað milljónum króna. 

Töluvert var um frammíköll á meðan Aðalsteinn flutti ræðu sína og var það aðeins Ómar Stefánsson sem kallaði fram í. Aðalsteinn var mjög ósáttur við þetta og upphófst rifrildi sem endaði með því að Aðalsteinn krafðist þess að Ómari yrði vísað úr salnum svo hann gæti flutt ræðu sína. Fundinum var í kjölfarið frestað um stund en hélt áfram og voru báðir bæjarfulltrúar í salnum. Fékk Aðalsteinn að klára ræðu sína.

Fundurinn heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert