Tilboð upp á meira en 10%

Frá baráttufundi framhaldsskólakennara í dag.
Frá baráttufundi framhaldsskólakennara í dag. Þórður Arnar Þórðarson

Framhaldsskólakennurum býðst nú launahækkun upp á meira en 10%. Náist samningar munu þeir gilda út október 2016. Forystumenn kennara eru bjartsýnir á að deilan leysist núna í vikunni, en þeir hafa verið í verkfalli undanfarnar tvær vikur.

„Þetta er ekki alveg að klárast. Við verðum að ganga frá ákveðnum málum í dag og á morgun og eitthvað fram eftir vikunni,“ sagði Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, að loknum fjölmennum baráttufundi framhaldsskólakennara í Framheimilinu við Safamýri í dag.

„Við höfum verið að ræða þrennt, það er launaliðurinn, umbúnaður um hvað muni gerast ef samningur verður samþykktur núna en felldur að ári og svo eru það rekstrarþættir framhaldsskólanna vegna þess að við erum að breyta vinnutímaskipulagi verulega.“

Ólafur segir að í þessum breytingum felist m.a. hvernig tekið verði á því í kjarasamningum ef einstakir skólar ákveði að stytta nám til stúdentsprófs. Þá sé verið að ræða um að samningurinn gildi til loka október 2016.

Tilbúin til að skoða tilboðið alvarlega

„Við höfum fengið launatilboð frá ríkinu sem við erum tilbúin til að skoða alvarlega, en við ákváðum að ýta því til hliðar á meðan við göngum frá öðrum hlutum samningsins. Síðan skoðum við launin, en það gæti liðið einhver tími þangað til við komumst í það. Ég get ekki farið nánar út í þetta, þar sem það er ekki endanlegt.“

Spurður að því hvort tilboðið sé hærra en fyrri launatilboð sem lögð hafa verið á borðið í viðræðunum segir Ólafur svo vera. Er það nálægt þeim 17% sem þið farið fram á? Það vantar talsvert upp á það. Er tilboðið hærra en 10% hækkun? „Já, það er það,“ segir Ólafur og segist bjartsýnn á að deilan leysist núna í vikunni.

Verkfall framhaldsskólakennara hófst fyrir tveimur vikum, 17. mars síðastliðinn. Framhaldsskólakennarar hafa krafist 17% hækkunar á launum sem þeir segja að sé sá munur sem er á launum þeirra og sambærilegra stétta.

Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.
Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert