„Mætt af skilningsleysi“

Kristján Jóhannsson, félags flugmálastarfsmanna ríkisins
Kristján Jóhannsson, félags flugmálastarfsmanna ríkisins Mynd/FFR

„Við höfum verið að berjast við fyrirtækið í langan tíma, en okkur hefur alltaf verið mætt með skilningsleysi á okkar kröfum,“ segir Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFS) í samtali við mbl.is.

Kristján skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann hvetur nýja stjórn Isavia, sem kosin verður á aðalfundi síðar í dag, til þess að hlusta á sjónarmið starfsmanna. 

Starfsánægja ekki mikil

„Það hefur komið víða fram í fjölmiðlum undanfarið að starfsánægja er ekki mikil í fyrirtækinu og við höfum bent á þetta í langan tíma,“ segir Kristján og bætir við að niðurstaða kosninganna um verkfallið sýni það með skýrum hætti. „Af 365 sem kusu sögðu 320 já við verkfalli. Það hljóta að teljast skýr skilaboð. Það verður að okkar mati að verða viðhorfsbreyting hjá Isavia gagnvart fólkinu sem þar starfar. Við vonumst til að ný stjórn taki á þessu máli. Ég vænti góðs samstarfs, því að lokum munum við þurfa að semja. Við vonum bara að ný stjórn nálgist kröfur starfsmanna sinna og að umræða geti farið fram,“ segir Kristján að lokum. 

Öllu flugi mun seinka

Ef af verkfallinu verður munu félagsmenn FFR, SFR og LSS hjá Isavia leggja niður störf frá klukkan fjögur til níu að morgni 8., 23. og 25. apríl, og mun allsherjarverkfall allra félagsmanna hefjast klukkan fjögur að morgni þann 30. apríl. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair sagði í viðtali við mbl.is að flugumferð þessa daga muni seinka um 3-4 klukkustundir, og að alls muni verkfallið hafa áhrif á um 5000 farþega hjá Icelandair. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert