Fréttastjóri Vísis biðst afsökunar

Ruslabílar í röðum við húsnæði 365 í morgun.
Ruslabílar í röðum við húsnæði 365 í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Aldrei var ætlunin að þjófkenna saklaust fólk, segir Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, í afsökunarbeiðni sem þar birtist vegna fréttaflutnings miðilsins um starfsmenn Sorphirðu Reykjavíkur. Þeir voru sakaðir um tilraunir til innbrots í einbýlishús.

Starfsmenn Sorphirðunnar fjölmenntu að höfuðstöðvum 365 miðla í morgun til að mótmæla fréttaflutningnum og sagði Guðrún Magnea Guðmundsdóttir, flokkstjóri, að fréttin hefði reitt starfsmenn til mikillar reiði. „Við erum gerð að ótíndum glæpamönnum. Við ætlum ekki að sitja þegjandi undir því.“

Í yfirlýsingu fréttastjóra Vísis segir að ritstjórnin harmi það hafi fréttaflutningur af málinu valdið misskilningi og biðjist afsökunar á þeim óþægindum sem fréttin kunni að hafa valdið.

Vitaskuld var aldrei ætlunin að þjófkenna saklaust fólk sem í þessu tilfelli eru sorphirðumenn Reykjavíkur. Í þessu samhengi má benda á að í fyrirsögn fréttarinnar felst ótímabær fullyrðing og það harmar Vísir. Sorphirðumenn Reykjavíkur eru hér með beðnir afsökunar.

Sjá einnig: Ruslabílar borgarinnar við 365

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert