Veiðigjöldin verða 9,45 milljarðar

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og sjávarútvegsráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og sjávarútvegsráðherra mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, lagði í dag fram frumvarp til breytinga á lögum um veiðileyfagjald. Í ræðu ráðherra sagði hann að breytingarnar sem liggi fyrir þinginu séu til komnar eftir endurskoðun á gildandi lögum, sem boðuð var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. 

Með frumvarpinu er lagt til að veiðigjöld verði ákveðin sem föst krónutala á afla úr sjó á fiskveiðiárinu 2014/2015, að veiðigjöldum verði jafnað niður á grundvelli útreiknings á svonefndum afkomustuðlum nytjastofna sem byggjast á reiknaðri framlegð við veiðiúthald úr einstökum stofnum og að ákvæði um frítekjumark um tímabundna lækkun veiðigjalda vegna kvótakaupa taki nokkrum breytingum sem spegla breytingar í lögunum að öðru leyti.

„Breytingar voru gerðar á sumarþingi 2013, sem fólu í sér að álagning sérstaks veiðigjalds kom ekki til framkvæmda eins og til stóð,„ sagði Sigurður Ingi. Þá sagði hann að ákvæði þau er voru í lögum um veiðigjald, hafi ekki verið framkvæmanleg. 

Samkvæmt því frumvarpi sem nú er lagt fyrir Alþingi verður heildarfjárhæð veiðigjalda ákveðin sem 35% af grunni, sem er allur hagnaður (EBT) við veiðar og 20% af hagnaði í fiskvinnslu, samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu 2012. Gjaldið er annars vegar lagt á í botnfisktegundum og hins vegar í uppsjávarfisktegundum. 

„Samkvæmt frumvarpinu verður heildarfjárhæð veiðigjalda um 9,45 milljarðar kr. Frá þessu dragast frádráttarliðir vegna svonefnds frítekjumarks og tímabundinnar skuldalækkunar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum. Sá frádráttur gæti numið um 1,5 milljörðum kr. og því yrðu tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum um 8 milljarðar kr. á næsta fiskveiðiári 2014/2015. Í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjöldum verði 9,770 milljarðar kr. á fjárlagaárinu, og er þessi áætlun nokkuð lægri en sem því nemur,“ segir í athugasemdum við frumvarpið. 

 Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert