Notendur deildu.net yfirheyrðir

Keppendur í The Biggest Loser Ísland.
Keppendur í The Biggest Loser Ísland.

Skjárinn ehf, sem meðal annars á og rekur sjónvarpsstöðina SkjáEinn, kærði ólögmæta afritun tiltekins einstaklings á þáttunum „Biggest Loser Ísland“ og dreifingu þeirra á slóðinni deildu.net. Búið er að yfirheyra einstaklinga sem tengjast málinu og telst það að mestu leyti upplýst.

Þættirnir hafa verið sóttir gríðarlega oft á deildu.net, en þar má finna mikið magn af höfundarvörðu efni. Að mati Skjásins er um skýrt brot á ákvæðum höfundalaga og ákvæðum almennra hegningarlaga. „Við teljum afar mikilvægt að bregðast hart við hvers kyns brotum á höfundaréttarvörðu efni okkar. Þættirnir eru dýrasta innlenda framleiðsla sem Skjárinn hefur látið ráðast í til þessa. Er hér því um veigamikla hagsmuni að ræða, sem varðir eru af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, í tilkynningu.

Friðrik segir að það þurfi að verða vitundavakning í þessum málaflokki. „Ég var alla vega alinn upp við það að ef maður vill ekki greiða fyrir hlutinn fær maður ekki að neyta hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert