Frumvörpin afgreidd úr nefnd

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frumvörp ríkisstjórnarinnar um leiðrétt­ingu verðtryggðra hús­næðislána voru afgreidd út úr efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á fundi nefndarinnar í morgun. Þetta kom fram í máli Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa í nefndinni, í umræðum um störf þingsins.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði í gær að frumvörpin yrðu væntanlega afgreidd úr nefndinni í dag og að enn væri mögulegt að frumvörpin tækju gildi fyrir 15. maí næstkomandi eins og gert hefði verið ráð fyrir og að hægt yrði að sækja um skuldalækkun frá og með þeim degi.

Ragnheiður gagnrýndi stjórnarandstöðuna harðlega fyrir að halda því fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru fyrst og fremst hugsaðar fyrir efnafólk. Minnti hún á að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ætlað að láta þjóðina greiða fyrir Icesave-reikningana. 

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði ekki hafa gert sér grein fyrir því að stjórnarmeirihlutinn væri kominn í slíkt rökþrot að hann gæti aðeins kallað „Icesave“. Sagði hann fyrsta Icesave-samninginn hafa kostað minna en aðgerðir stjórnarinnar í skuldamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert