Neita sér um tannlækni vegna kostnaðar

Tannlæknir.
Tannlæknir. Árni Sæberg

Aðeins Lettland, Portúgal og Rúmenía voru með hærra hlutfall en Ísland í könnun á því hversu margir hefðu sleppt heimsókn til tannlæknis sökum kostnaðar jafnvel þótt þeir þyrftu á slíkri þjónustu að halda. Árið 2013 sögðust rúm 11% Íslendinga hafa sleppt slíkri heimsókn en hlutfallið var 5,6% árið 2008.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. Þar segir að mikill munur hafi verið milli tekjuhópa á Íslandi, en 17,7% í tekjulægsta fimmtungi höfðu sleppt tannlæknisheimsókn sökum kostnaðar en 4,8% í þeim tekjuhæsta.

Þegar spurt var um aðrar læknisheimsóknir kom í ljós að tæp 3,7% Íslendinga höfðu sleppt læknisheimsókn sökum kostnaðar árið 2012 og var Ísland með sjötta hæsta hlutfallið meðal Evrópuþjóða. Lettland, Rúmenía og Grikkland voru þau lönd þar sem fólk sleppti helst læknisheimsókn sökum kostnaðar.

Þá voru Íslendingar í sjötta sæti Evrópuþjóða við mat á eigin heilsufari árið 2012 en 77% Íslendinga töldu sig búa við góða heilsu. Írar, Svisslendingar og Svíar mátu heilsufar sitt best. Í fyrra töldu fleiri íslenskir karlar en konur heilsufar sitt gott eða 79,5% karla á móti 74,1% kvenna.

Hagur og heilbrigði 2013 – Hagtíðindi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert