Mótmæla breytingu friðlandsmarka

Hálendi Íslands.
Hálendi Íslands. mbl.is/Rax

Náttúruverndarþing sem haldið var á laugardag, ályktar að hálendi Íslands, stærsta víðerni í Evrópu þar sem ósnortin og lítt snortin náttúra fær enn notið sín, verði að vernda sem eina heild. „Hvers kyns áform um virkjanir eða lagningu háspennulína á miðhálendinu vinna gegn hagsmunum landsins,“ segir í ályktun þingsins.

Ályktunin í heild:

„Náttúruverndarþing mótmælir harðlega áformum umhverfis- og auðlindaráðherra um breytt friðlandsmörk í Þjórsárverum til að skapa rými fyrir Norðlingaölduveitu eða annað miðlunarlón við Þjórsárver. Ennfremur, stjórnvöldum ber skylda til að vernda náttúru landsins fyrir ágangi ferðamanna.

Mývatn á heima á lista UNESCO yfir helstu náttúruundur veraldar en til að svo geti orðið verður að draga úr áhrifum mannsins á lífríki þess eins mikið og unnt er.  

Náttúruverndarþingið áréttar að hvers kyns áform um borun eftir olíu á norðurslóðum ógna lífríki hafsins og þá ekki síður byggð og menningu við Atlantshaf.

Vísindin eru skýr: Ekki verður unnt að brenna nema 25% þeirra olíubirgða sem þekktar eru svo takast megi að koma í veg fyrir stórkostlega eyðileggingu af völdum loftslagsbreytinga. Ísland er á versta stað hvað varðar súrnun sjávar sem mun hafa afar neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Eina tækifærið til að bægja þeirri ógn frá felst í að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Um það ber ríkisstjórn Íslands að hafa forgöngu á alþjóðavettvangi í þágu þjóðarinnar.

Réttur almennings til að mótmæla náttúruspjöllum er grunnforsenda þess að mannkyni takist að forða tortímingu mannlífs á jörðinni. Árósasamningurinn kveður skýrt á um þessi réttindi og því ber Alþingi að breyta lögum þannig að frjáls félagasamtök eigi sjálfkrafa aðild að dómsmálum er varða umhverfis- og náttúruverndarmál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert