„Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn“

Frá málflutningi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Frá málflutningi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

„Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn og greindi frá ferð okkar til Keflavíkur,“ skrifaði Guðjón Skarphéðinsson 8. desember 1976 í dag­bók sína í gæslu­v­arðhaldi vegna gruns um aðild að Geirfinns­mál­inu. Hann sagðist vona að það yrði til þess að lægja öldurnar í íslensku samfélagi.

Í ítarlegri úttekt breska ríkisútvarpsins, BBC, á Guðmund­ar- og Geirfinns­málunum sem birt var í dag er meðal annars vitnað í dagbók Guðjóns Skarphéðinssonar en BBC ræddi einnig við hann vegna málsins. „Þegar hann les orð sín í fyrsta skipti í næstum 40 ár segir hann: „frekar óhugnanlegt“.“

Guðjón var handtekinn í nóvember 1976 og hann hefur dagbók sína á þeim orðum að hann viti ekkert um málið. Eins og öðrum sakborningum var Guðjóni haldið í einangrun og á næstu vikum breyttist tónninn í dagbókinni. Hann bað guð að hjálpa sér að muna atvik málsins og í desember skrifaði hann: „Ég man ekkert og er að missa vitið.“

Yfirheyrður í sjö sólarhringa

Guðjón var síðar dæmd­ur fyr­ir aðild að mál­inu en í niður­stöðu skýrslu starfs­hóps sem kom út í fyrra seg­ir að í raun beri framb­urður hans og það að hann játaði þátt­töku í mál­inu öll merki falskr­ar játn­ing­ar.

Hann þurfti að þola lang­ar og tíðar yf­ir­heyrsl­ur, að minnsta kosti 75 tals­ins í sam­tals tæpa sjö sól­ar­hringa. Þá fjórtán mánuði sem hann var í gæsluvarðhaldi hélt hann dagbókina. Í skýrslu starfshópsins var vitnað í hana og á mbl.is greint frá nokkrum textabrotum. 

18. nóv­em­ber 1976 skrifaði Guðjón: „Stund­um finnst mér ég vera sek­ur en get ekki munað hvað hef­ur gerst. Biðin er svo erfið og að hugsa um alla þá sem þykir og hef­ur þótt vænt um mig. Ég hlýt að vera veik­ur og hafa verið það lengi. Þetta er geðsjúk­dóm­ur. Vilj­ann skort­ir all­an styrk.“

22. nóv­em­ber skrifaði hann: „Ef ég bara vissi hvort ég hefði tekið þátt í þessu eða ekki. Ég blekkti fólk það er þannig. Ég er alltaf að leika, ég er veik­ur maður.“

Guðjón sagði í viðtali við starfs­hóp­inn í fe­brú­ar 2012 að hann hefði aldrei verið sann­færður um að hann hefði verið viðriðinn hvarf Geirfinns, en eft­ir viðtöl við lög­reglu­menn og vett­vangs­ferð til Kefla­vík­ur 28. nóv­em­ber 1976 hefði hann verið 50% viss um að hann væri flækt­ur í málið.

Sakborningar tóku þátt  í sviðsetningu

Í úttekt BBC er svo birt textabrot frá 8. desember 1976. Í því segir: „Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn og greindi frá ferð okkar til Keflavíkur. Vonandi finnst þá lík mannsins á næstu dögum og íslenskt samfélag getur dregið andann djúpt og slakað á.“

Eins og greint var frá á mbl.is í gær komu bresku fjöl­miðlamenn­irn­ir Simon Cox og Helen Gra­dy til Íslands 24. mars síðastliðinn til að vinna að gerð þátt­ar­ins. Afraksturinn má sjá á vefsvæði BBC en meðal þess sem vekur athygli eru ljósmyndir sem teknar voru við rannsókn málsins. Má á þeim sjá sakborning og lögreglu sviðsetja atvik í málinu. BBC segir þetta til marks um hversu örvæntingafullir rannsóknarlögreglumennirnir voru við rannsóknina.

Umfjöllun BBC

Frétt mbl.is: „Venji mig við þá tilhugsun að vera morðingi“

Frétt Morgunblaðsins: Játningar óáreiðanlegar eða falskar

Guðjón Skarphéðinsson
Guðjón Skarphéðinsson
Karl Schütz, þýskur sakamálafræðingur sem aðstoðaði við rannsókn Geirfinnsmálsins, við …
Karl Schütz, þýskur sakamálafræðingur sem aðstoðaði við rannsókn Geirfinnsmálsins, við leirstyttuna. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert