Lög um frestun verkfalls samþykkt

Hanna Birna Kristjánsdóttir mælti fyrir frumvarpinu í gærkvöldi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir mælti fyrir frumvarpinu í gærkvöldi. mbl.is/Eggert

Frumvarp um frestun verkfallsaðgerða flugmanna hjá Icelandair urðu að lögum á Alþingi nú rétt í þessu. 32 þingmenn sögðu já, 14 sögðu nei, 6 greiddu ekki atkvæði og 11 voru fjarverandi. 

Sam­kvæmt lögunum verða verk­fallsaðgerðir sem Fé­lag ís­lenskra at­vinnuflug­manna hóf gegn Icelanda­ir 9. maí óheim­il­ar, frá gildis­töku lag­anna. Deiluaðilum verður heim­ilt að semja um kjara­mál, en óheim­ilt verður að knýja fram kjara­bæt­ur með vinnu­stöðvun.

Hafi deiluaðilar ekki náð sam­komu­lagi þann 1. júní skal gerðardóm­ur grípa inn í og ákveða kaup og kjör flug­manna Icelanda­ir fyr­ir 1. júlí nk. Ákvarðanir gerðardóms verða bindandi sem kjarasamningur.

Í at­huga­semd­um við frum­varpið seg­ir að ljóst sé og ótví­rætt að gríðarleg­ir sam­fé­lags­leg­ir og efna­hags­leg­ir hags­mun­ir séu í húfi. Verk­fallsaðgerðirn­ar nái til 300 flug­manna Icelanda­ir, hafi áhrif á um 600 flug til og frá land­inu og 100.000 farþega fé­lags­ins þá 9 daga sem tíma­bund­in vinnu­stöðvun nær til. 

Áætlað tekjutap á hverj­um degi verk­fallsaðgerða nemi um 900 millj­ón­um króna. Eru þar lagðar sam­an gjald­eyris­tekj­ur ferðaþjón­ust­unn­ar og bein­ar skatt­tekj­ur henn­ar, miðað við upp­reiknaðar töl­ur frá maí og júní 2013. Hlut­deild Icelanda­ir í flugi til og frá land­inu á þessu tíma­bili er rúm­lega 70%.

„Ferðaþjón­ust­an og af­leidd­ar at­vinnu­grein­ar eiga því hér mikið und­ir,“ seg­ir í at­huga­semd­um við frum­varpið. Verk­fallsaðgerðirn­ar hafi nú þegar skapað mikla óvissu í ferðaþjón­ust­unni, sem sé viðkvæm at­vinnu­grein sem megi við litl­um áföll­um.

„Eft­ir því sem rösk­un á flug­inu eykst verður grein­in fyr­ir meiri skaða. Söluaðilar er­lend­is fylgj­ast grannt með stöðu mála þar sem þeir íhuga að af­lýsa ferðum til lands­ins vegna þess­ar­ar óvissu. Áhrifa þess­ara verk­fallsaðgerða kann því að gæta langt fram í tím­ann,“ seg­ir í at­huga­semd­um við frum­varpið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert