Flugmenn segja brotið á mannréttindum

Formaður FÍA segir lög á verkfallsaðgerðir flugmanna veikja samningsstöðu þeirra …
Formaður FÍA segir lög á verkfallsaðgerðir flugmanna veikja samningsstöðu þeirra í framtíðinni. mbl.is

„Við erum afar ósáttir. Okkur finnst það mjög harkalegt þegar lög eru sett á löglega boðuð verkföll í lýðræðisríki. Okkur finnst það vera mannréttindabrot,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra flugmanna (FÍA) en á Alþingi fer nú fram umræða um frum­varp til laga um frest­un verk­fallsaðgerða FÍA gegn Icelanda­ir.

Lagasetningin er rökstudd með vísan til þeirra hagsmuna sem bundnir eru við millilandaflug á Íslandi en Hafsteinn segir ósanngjarnt að vísa ábyrgðinni einni á FÍA. „Það eru tveir sem koma að þessari deilu og það hefur aldrei verið lagt af stað til þess að semja við okkur af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Í ljósi þessa finnst okkur þetta mjög ósanngjarnt.“ Þá segir hann varhugavert að atvinnurekendur geti gengið að því sem vísu að fá lög sett á launafólk.

„Við spyrjum okkur hver samningsstaða okkar verði í framtíðinni, þegar hægt er að stoppa okkur af með lögum. Við spyrjum einnig hvar þetta endar, að Icelandair sé orðið það þjóðhagslega mikilvægt að við megum ekki eiga okkar verkfallsrétt lengur?“

Ætluðu aldrei að semja

Hann segir SA aldrei hafa horfið frá samningnum sem upphaflega var boðinn en það er kjarasamningur ASÍ sem aðilar vinnu­markaðar­ins und­ir­rituðu í des­em­ber og gild­ir til 31. des­em­ber 2014 og kveður á um 2,8% launa­hækk­un. „Viðsemjendur okkar hafa aldrei ætlað að semja við okkur. Kjaradeilan hefur aldrei komist á það stig að vera samningar. Við erum ekki aðilar að þessu samkomulagi né að ASÍ en okkur hefur ekkert annað verið boðið.“

Hafsteinn segir viðræðurnar vera stopp og engan fund fyrirhugaðan. „Þrátt fyrir lögin er kjaradeilan ekki leyst. Það á eftir að klára að semja og það verður okkar verkefni núna.“

Flugmenn hjá Icelandair fóru í verkfall þann 9. maí s.l. og ar næst áformað að leggja niður störf á morgun, föstudag.  Frekari aðgerðir voru svo boðaðar í lotum. 

Samkvæmt lögunum fá fulltrúar FÍA og Icelandair frest til 15. júní til þess að ná niðurstöðu í kjaradeilunni ella fer málið fyrir kjaradóm sem ákveða skal kjör fyrir 15. september.

Hafsteinn Pálsson formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Hafsteinn Pálsson formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna Af vef FIA.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert