Nýr kjarasamningur markar tímamót

Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara nú …
Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara nú í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að nýi kjarasamningur félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga marki að einhverju leyti tímamót. 

„Við hefðum auðvitað ekki skrifað undir samninginn nema að við teldum að þetta gæti verið ásættanleg niðurstaða fyrir okkar fólk,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

„Þetta er búin að vera mikil vinna nú í langan tíma. Við lögðum allt kapp á að komast að samkomulagi fyrir fyrirhugaða vinnustöðvun á morgun. Við funduðum fram á nótt í gær og byrjuðum snemma í morgun. Þetta tókst að lokum,“ segir hann.

Hann segir að samningurinn sé að mörgu leyti áþekkur þeim samningi sem framhaldsskólakennarar skrifuðu undir í byrjun aprílmánaðar. „Við vorum reyndar, áður en framhaldsskólakennararnir skrifuðu undir sinn samning, búin að vinna okkur inn á þessa braut og þegar þeir náðu sáttum, þá styrkti það okkur í því að halda áfram á þessari leið,“ segir Ólafur. 

„Samningarnir eru frekar áþekkir, það verður að segjast eins og er.“

Hann segir að í samningnum sé meðal annars kveðið á um leiðarvísi um vinnumat fyrir grunnskólakennara. „Verkefnisstjórn mun taka við því verkefni og þegar vinnunni lýkur verður það borið undir atkvæði félagsmanna, þá í febrúar á næsta ári.

Þá sjáum við vonandi hvernig heildarramminn í kringum þau mál eru,“ segir hann og bætir við að einnig sé kveðið á um almennar launahækkanir í samningnum, líkt og aðrir hafi fengið.

„Við munum hitta trúnaðarmenn okkar á morgun og þá förum við betur og dýpra yfir efni samningsins.“ Að því loknu verður samningurinn kynntur almennum félagsmönnum og hann síðan borinn undir atkvæði þeirra.

Almenn sátt um niðurstöðuna

Inga Rún Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að samn­ing­ur­inn gilti til loka árs­ins 2016.

„Þarna erum við að gera grund­vall­ar­breyt­ing­ar á vinnu­tíma­ákvæðum sem við trú­um að verði skóla­starf­inu sem og kenn­ur­um, bæði þeirra launa­kjör­um og vinnu­um­hverfi, mik­il lyfti­stöng,“ seg­ir hún í sam­tali við mbl.is.

„Það er búið að vera að vinna að þessu í mörg ár.

Það má segja að þessi lota hafi staðið yfir frá ár­inu 2011 og það er búin að fara fram gríðarleg grein­ing­ar­vinna og und­ir­bún­ing­ur fyr­ir þenn­an samn­ing sem er að skila sér með þess­ari und­ir­rit­un í kvöld.

Ég held að það sé al­menn sátt um þessa niður­stöðu,“ sagði hún jafnframt.

Hagur skóla og kennara batni

Í frétt á vef Kennarasambands Íslands segir að samningurinn verði borinn undir atkvæði félagsmanna síðar í þessum mánuði. 

„Með samningi þessum er þess vænst að hagur bæði skóla og kennara batni og skólaþróun verði auðveldari innan skólanna. Aðilar samnings telja að með honum aukist möguleikar skóla til að haga starfi sínu með breytilegum og sveigjanlegum hætti öllum til hagsbóta.

Kynning á nýjum samningi hefst strax í fyrramálið og verða trúnaðarmenn boðaðir á fundi í svæðafélögum FG. Í kjölfarið kynna þeir nýjan kjarasamning hver á sínum vinnustað. Atkvæðagreiðslu um samninginn á að vera lokið 30. maí næstkomandi,“ segir í fréttinni.

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert