Rasismi vandamál á Íslandi

Pape Mamadou Faye.
Pape Mamadou Faye. mbl.is/Kristinn

„Það er rasismi á Íslandi og löngu tímabært að við horfumst í augu við það vandamál. Ég hef hins vegar aldrei látið mótlæti af þessu tagi brjóta mig niður, þvert á móti hef ég notað það sem hvatningu og til að standa mig ennþá betur. Rasisminn hefur gert mig sterkari.“

Þetta segir Pape Mamadou Faye, leikmaður Víkings, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. Pape er fæddur í Senegal en hefur búið hér frá ellefu ára aldri.

 „Þegar ég var þrettán eða fjórtán ára fór að bera á fordómum í minn garð. Inni á vellinum kom fyrir að andstæðingar mínir fóru yfir strikið og í áhorfendastúkunni létu foreldrar og aðrir áhorfendur ekki sitt eftir liggja. „Það var mjög sárt að upplifa þetta en í miðjum leik var lítið sem ég gat gert. Kári Jónasson þjálfari (hjá Fylki) tók hins vegar upp hanskann fyrir mig á hliðarlínunni og lét áhorfendur gjarnan hafa það óþvegið. Ég er honum þakklátur fyrir það.“

Eftir hálft tólfta ár á Íslandi kveðst Pape kunna að höndla kynþáttaníð. Kennir bara í brjósti um þá sem hafa það í frammi. „Ég hef fengið að heyra allskonar vitleysu. Eins og að ég sé ættleiddur, að ég sé miklu eldri en ég er og að mér hafi verið smyglað hingað í gámi. Ég þarf ekkert að leiðrétta svona lagað lengur. Það skiptir engu máli. Ég er alinn upp á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari. Auðvitað verð ég alltaf Senegali, ég fæddist þar, en það er Íslendingur í mér. Enginn getur tekið það frá mér.“

Pape ræðir einnig um sáran viðskilnað við uppeldisfélag sitt, Fylki, árið 2010. „Þetta var agabrot. Mér urðu á mistök. Gerði hlut sem ég átti ekki að gera. Ég sá strax eftir því en ef til vill var ég ekki nógu auðmjúkur í minni iðrun á þessum tíma. Ég myndi aldrei gera svona lagað í dag. Eigi að síður fannst mér þá og finnst enn að Fylkir hefði getað leyst málið með öðrum hætti en að reka mig úr félaginu. Auðvitað áttu þeir að refsa mér en hefðu getað gert það með því að setja mig í bann eða lána mig til annars félags. Það var fullgróft að reka mig. Ég var bara krakki, nítján ára, og Fylkir var mín önnur fjölskylda. Móðir mín hefur alltaf verið stoð mín og stytta en á þessum tímapunkti í mínu lífi kom það sér illa að faðir minn skyldi vera í útlöndum. Mig vantaði tilfinnanlega föðurímynd hér á Íslandi. Einhvern til að setjast niður með mér og gefa mér holl ráð. Það hefði stjórn Fylkis getað gert. Menn ákváðu hins vegar að fara þessa leið og við því er ekkert að segja. Það breytir ekki því að mér þykir ennþá mjög vænt um Fylki. Ég mun alltaf geyma félagið í hjarta mér.“

Pape í leik með Víkingi gegn sínum gömlu félögum í …
Pape í leik með Víkingi gegn sínum gömlu félögum í Fylki. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sunnudagsblað Morgunblaðsins kom út í dag.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins kom út í dag.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert