Systirin sló bræðrunum við

Þjóðbjörg Eiríksdóttir
Þjóðbjörg Eiríksdóttir Páll Skúlason

Það er ekki hægt að segja annað en að systkinin frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum hafi góð gen nema eitthvað sé í mjólkinni sem kýrnar á bænum gefa af sér. Systkinin eru fjögur og hafa þrjú þeirra dúxað frá Menntaskólanum að Laugarvatni (ML), í hvert skiptið með hæstu aðaleinkunn sem gefin hefur verið við skólann. Fjórða og yngsta systkinið er enn í grunnskóla.

Vorið 2009 útskrifaðist elsti bróðirinn, Ögmundur Eiríksson, frá ML með einkunnina 9,75 og sló þá met frænku þeirra sem hafði átt hæstu meðaleinkunn við skólann þangað til. Vorið 2011 útskrifaðist miðbróðirinn, Jón Hjalti, með 9,78 og sló þar með met bróður síns. Það met féll svo um helgina þegar Þjóðbjörg systir þeirra útskrifaðist sem stúdent frá ML og dúxaði með aðaleinkunnina 9,89 og vetrareinkunnina 10.

Útreiknaðar rollur

Hafðir þú það að markmiði að toppa bræður þína? „Það var nú ekki yfirlýst markmið en maður hugsaði kannski með sér að það væri svolítið skemmtilegt,“ segir Þjóðbjörg.

Þú hefur ekki áhyggjur af því að yngri bróðir þinn slái þér við þegar þar að kemur? „Hann er tíu árum yngri en ég svo það verður örugglega búið að breyta skólakerfinu þá og verður ekkert marktækt,“ svarar hún glettin.

Elsti bróðir Þjóðbjargar er að ljúka meistaranámi í stærðfræði í Þýskalandi, miðbróðirinn að klára búvísindi frá Landbúnaðarháskóla Íslands og sjálf stefnir Þjóðbjörg á nám í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands í haust. Í sumar verður hún vinnumaður heima hjá sér í sveitinni.

Við útskriftina fékk Þjóðbjörg ellefu verðlaun, meðal annars fyrir eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, þýsku, líffræði og fyrir góðan árangur í raunvísindum.

35 útskrifuðust sem stúdentar frá ML um helgina og segir Þjóðbjörg að sér hafi verið veitt hörð samkeppni, það hafi verið mikill metnaður í bekknum. „Annars hefði ég örugglega ekkert nennt að læra svona mikið. Sérstaklega var Daði, sem var semidúx, mér erfiður. Hann var alltaf að læra og reyna að vera hærri en ég svo ég þurfti að leggja aðeins meira á mig,“ segir Þjóðbjörg kankvís og bætir við að þrátt fyrir það hafi hún ekki legið yfir bókunum allan veturinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert