Tveir búa á vettvangi hins meinta brots

Frá Hvammstanga.
Frá Hvammstanga. Mats Wibe Lund

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir er um að hafa ráðið manni bana á Hvammstanga um síðustu helgi. Þeir verða í haldi til 22. júní næstkomandi.

Málavextir eru þeir samkvæmt greinargerð rannsakenda að um klukkan 23 síðasta laugardagskvöld barst lögreglunni á Blönduósi tilkynning frá Landspítala um að þar lægi sjúklingur, sem læknar teldu að hefði orðið fyrir mjög alvarlegri líkamsárás. Hann var höfuðkúpubrotinn, með mar á heila gegnt brotinu og drep var farið að myndast á heila.

Maðurinn var fluttur á Landspítala þar sem hann lést fyrr í vikunni.

Fljótlega tók rannsóknin þá stefnu að lögreglan fékk upplýsingar um að maðurinn sem lést hefði hitt og átt í samskiptum við fjóra menn föstudagskvöldið fyrir viku. Mennirnir skýrðu ekki skýrt með sama hætti frá hvernig þessi samskipti voru en þau virðast hafa átt sér stað að tveir mannanna búa.

Miðað við áverkana telur lögregla sig hafa rökstuddan grun um að þeir séu af mannavöldum. Mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi búa á vettvangi hins meinta brots en hinir tveir eru bræður sem búa saman.

„Eins og málið liggur fyrir verður að telja að brotaþoli hafi fengið áverkana á dvalarstað sakbornings þar sem sakborningur var einnig. Er óhjákvæmilegt að á þessu stigi málsins beinist grunur að honum um að hafa valdið eða átt þátt í að valda þeim áverkum sem brotaþoli hefur orðið fyrir þannig að varðað geti við framangreind ákvæði almennra hegningarlaga,“ segir í gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir báðum mannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert