Mál vegna mannsláts á Hvammstanga fellt niður

Frá Hvammstanga.
Frá Hvammstanga. Mats Wibe Lund

Ekki verður gefin út ákæra vegna mannsláts sem varð á Hvammstanga í júní á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá embætti Ríkissaksóknara leiddi rannsókn málsins ekki í ljós að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti. Því hefur málið verið fellt niður. 

Upphaflega voru fjórir menn handteknir vegna málsins, grunaðir um líkamsárás. Talið var að mennirnir hefðu ráðist á annan, sem lést þremur dögum síðar.

Fjölmargir voru yfirheyrðir vegna málsins en fjórir handteknir. Þeir voru síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald en tveimur sleppt nokkrum dögum síðar. Hinum mönnunum var jafnframt sleppt síðar í sama mánuði en þeim var gert að sæta farbanni. Þeir eru feðgar og bjuggu þeir í húsinu á Hvammstanga þar sem maðurinn fannst. Þeir sættu farbanni þar til í lok september. 

Gunn­ar Jó­hann­es­son, yf­ir­maður rann­sókn­ar­deild­ar lög­regl­unn­ar á Ak­ur­eyri staðfesti í samtali við mbl.is í lok nóvember að rannsókn lögreglunnar á málinu væri lokið. Málið fór þaðan til embættis ríkissaksóknara.

Maður­inn sem lést hlaut þungt höfuðhögg með þeim af­leiðing­um að höfuðkúp­an brotnaði og blæddi inn á heil­ann. Hann hét Tom­asz Grzeg­orz Krzecz­kowski og var 35 ára gamall þegar hann lést. Hann var til heimilis á Hvammstanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert