Feðgar á Hvammstanga lausir úr farbanni

Feðgarnir bjuggu í húsinu á Hvammstanga þar sem maðurinn fannst.
Feðgarnir bjuggu í húsinu á Hvammstanga þar sem maðurinn fannst. Mats Wibe Lund

Niðurstöður úr réttarmeinafræðilegri rannsókn á meintri líkamsárás sem átti sér stað á Hvammstanga í júní, og leiddi til dauðsfalls bæjarbúa, hafa borist lögreglunni á Akureyri.

Þetta staðfestir Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri í samtali við mbl.is.

Gunnar segir rannsóknina ekki hafa leitt neitt nýtt í ljós í málinu, en komið hefur fram að maðurinn sem lést hafi hlotið þungt höfuðhögg með þeim afleiðingum að höfuðkúpan brotnaði og blæddi inn á heilann. 

Maðurinn lést þann 18. júní sl., þremur dögum eftir meinta líkamsárás. 

Að sögn Gunnars er enn beðið eftir niðurstöðu úr DNA rannsókn sem gerð var á vettvangi. Í framhaldi þess fari málið til ríkissaksóknara.

Upprunalega voru fjórir menn settir í gæsluvarðhald vegna málsins en var tveimur þeirra sleppt 19. júní.

Tveir menn, feðgar sem bjuggu í húsinu á Hvammstanga þar sem maðurinn fannst, sættu farbanni þar til í lok september. Gunnar segir ekki hafa verið farið fram á áframhaldandi farbann á mennina og séu þeir nú frjálsir ferða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert