Fikruðu sig eftir mjóum syllum

Aðstæður í Bleiksárgljúfri eru mjög erfiðar.
Aðstæður í Bleiksárgljúfri eru mjög erfiðar. Ljósmynd/Guðbrandur Örn Arnarson.

Vatn úr einum af hyljum Bleiksárgljúfurs í Fljótshlíð rennur í foss sem fellur þrjátíu metra niður í gljúfrið. Vatnið fellur í spíral í gegnum berggang sem er um tíu metra langur og vilja björgunarsveitarmenn skoða ganginn í von um að finna Ástu Stefánsdóttur, 35 ára lögfræðing, sem saknað hefur verið í um tvær vikur.

Leit stóð yfir í allan gærdag og var henni hætt á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þá var leitarfólkið orðið mjög þreytt, enda langur og krefjandi dagur að baki. Einnig þurfti að útvega búnað vegna leitarinnar.

Guðbrandur Örn Arnarson, stjórnandi aðgerðarinnar, mun funda með lögreglustjóranum á Hvolsvelli í dag. Tekin verður ákvörðun um hvenær leit verður haldið áfram, en það verður hugsanlega að kvöldi til í vikunni eða um næstu helgi.

Fikra sig eftir mjóum klettasyllum í gljúfrinu

Talið er að Ásta hafi farið ásamt sambýliskonu sinni, Pino Becerra Bolanos, að gljúfrinu um hvítasunnuhelgina fyrir um tveimur vikum. Föt þeirra fundust við hyl í gljúfrinu, sama hyl og nefndur var hér að ofan. Lík Pino fannst í gljúfrinu, um 130 metrum frá hylnum þar sem talið er hugsanlegt að konurnar hafi ætlað að synda, og rak líkið því nokkuð niður eftir Bleiksá. 

Þrátt fyrir ítarlega leit í gljúfrinu hefur ekki verið hægt að leita vel í bergganginum áður og var því tekin ákvörðun um að færa Bleiksá úr farvegi sínum að hluta til, kljúfa vatnsrennslið í tvennt og létta þrýstingi af ánni. Leggja á stór rör frá stíflunni og beina um þúsund sekúndulítrum af vatni úr árfarveginum til að auðvelda leitina í gljúfrinu. Framkvæmdin er gríðarlega flókin og tæknileg.

Eins og áður hefur komið fram eru aðstæður í Bleiksárgljúfri afar erfiðar. Gljúfrið er víða þröngt, um þrjátíu metra fall er niður í gljúfrið. Björgunarfólkið fikrar sig eftir klettasyllum í gljúfrinu, sem stundum eru aðeins um 50 sentimetrar á breidd. Skriki því fótur er 30 metra hátt fall niður. Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef það gerist og fer því enginn niður nema hann sé tryggður í línu.

Of áhættusamt að leita í bergganginum

Guðbrandur segir í samtali við mbl.is að verkið hafi verið mjög langt komið þegar leit var hætt í gærkvöldi. Enn er eftir að tengja og ganga frá búnaðinum sem notaður verður til að færa ána en það er mikið nákvæmnisverk. Hanga þarf í línu til að geta tekið tappann úr kerfinu.

Talsverðar líkur eru taldar vera á því að lík Ástu sé að finna í gljúfrinu. Þegar er búið að leita nokkrum sinnum í gljúfrinu og í nágrenni þess, allt að ósum Markarfljóts, en að sögn Guðbrands hefur ekki verið leitað vel í bergganginum vegna áhættu. „Eina færa leiðin er að veita hylnum fyrir ofan fossinn frá,“ segir Guðbrandur.

Berggangurinn er í um tveggja metra fjarlægð frá útgangspunkti leitarinnar, þar sem föt kvennanna fundust. „Sá sem stingur höfðinu í gegnum svona iðu fer niður með spottanum, það er ofboðslegur kraftur í vatninu.“

Aðstæðum breytt í von um að finna Ástu

Guðbrandur segir að leitarfólkið geti ekki verið sátt við leitina nema leitað verði vel á þessu svæði. Búið er að leita á svæðinu að því marki sem hægt er og hefur það ekki skilað árangri. „Nú er aðstæðum á svæðinu breytt til að leita meira. Vatnið sem streymir í fossinn verður leitt framhjá honum.“

Guðbrandur segir að leitarfólkið vinni út frá nokkrum sviðsmyndum, en þar eru búnar til hugsanlega aðstæður eða tilgátur og leitað út frá þeim. Einnig hefur verið leitað í útihúsum og skálum þar sem hægt væri að leita skjóls.

Bleiksárgljúfur er víða nokkur hundruð metrar á dýpt. Unnið er á nokkrum stöllum, um 200 metra inn í gilið. „Þar vinnum við á syllum, stundum eru þær einn metri á breidd, stundum 50 sentimetrar og stundum koma skútar sem eru um tveir til fjórir fermetrar,“ segir Guðbrandur.

Þegar mest hefur verið hafa um tuttugu manns verið við leit inni í gljúfrinu. Um helgina var farið með þungan búnað og löng rör og má því ekki mikið út af bera. „Maður horfir tíu sentimetra fram fyrir sig og þrjátíu metra niður,“ segir Guðbrandur.

Gríðarlega erfitt að leita í straumvatni

Þrátt fyrir viðamikla leit síðustu daga hefur ekki verið leitað alls staðar á svæðinu, að sögn Guðbrands. Búið er að fara yfir meirihluta leitarsvæðis í gljúfrinu með augum og höndum. Gilið er víða tveir til fjórir metrar á breidd og stundum þrengra, svo þröngt að leitarfólkið þarf að skríða á milli. „Það er auðvitað möguleiki á því að okkur yfirsjáist einhver glufa.“

„Við sigum brúnir, fórum og skoðuðum allar syllur frá útgangspunktinum út gilið. Sigið var sex sinnum í gær og farið aftur og aftur yfir. Búið er að skoða vatnsborðið með augunum, kafa í vatninu og synda inn í skúta. Það er gríðarlega erfitt að leita í straumvatni.“

Funda um áframhald leitarinnar í dag

Búið er að leggja mjög mikla vinnu í leitina að Ástu Stefánsdóttur. Um 220 menn hafa leyst 250 verkefni og sum þeirra oftar en einu sinni. Leitin er ekki hættulaus, þó búið sé að lágmarka áhættu. Fáar vísbendingar hafa borist og er gengið út frá því að konan sé í gljúfrinu.

Hundar hafa ekki verið notaðir við leitina í gljúfrinu sjálfu, enda eru þeir þjálfaðir til að finna lifandi fólk og er þar að auki talið of áhættusamt að nota þá til leitar á þessum stað.

Guðbrandur mun fara að Bleiksárgljúfri ásamt lögreglustjóranum á Hvolsvelli í dag. Fundað verður um stöðu leitarinnar og tekin ákvörðun um framhald hennar, en það verður hugsanlega að kvöldi til í vikunni eða um næstu helgi. 

Bleiksárgljúfur í Fljótshlíð.
Bleiksárgljúfur í Fljótshlíð. mbl.is/Rax
Gljúfrið er víða tveir til fjórir metrar á breidd.
Gljúfrið er víða tveir til fjórir metrar á breidd. Ljósmynd/Guðbrandur Örn Arnarson.
Kafarar úr sérsveit Ríkislögreglustjóra hafa meðal annars tekið þátt í …
Kafarar úr sérsveit Ríkislögreglustjóra hafa meðal annars tekið þátt í leitinni. Ljósmynd/Ríkislögreglustjóri
Frá leitinni í gær.
Frá leitinni í gær. Ljósmynd/Guðbrandur Örn Arnarson.
Frá leitinni í Bleiksárgljúfri í gær.
Frá leitinni í Bleiksárgljúfri í gær. Ljósmynd/Guðbrandur Örn Arnarson.
Konurnar voru í sumarbústað í Fljótshlíð
Konurnar voru í sumarbústað í Fljótshlíð Kort/Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert