Gefur lítið fyrir gagnrýni flugvirkja

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Styrmir Kári

Ekkert þokar í kjaradeilu flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 

„Kröfur flugvirkja standa algjörlega óhaggaðar frá því sem var áður en Alþingi ákvað að grípa inn í deiluna. Það er alveg óbreytt kröfugerð sem blasti við aðilum eftir að þeir aflýstu verkfalli. Það hefur ekkert breyst,“ segir Þorsteinn. 

Tveir fundir hafa verið haldnir í vikunni, síðast í gær, og stefnt er að því að halda viðræðum áfram strax eftir helgi.

Taka ekki þátt í leðjuslag

„Ég vísa þessari gagnrýni algjörlega á bug,“ segir Þorsteinn um gagnrýni Maríusar Sigurjónssonar, formanns Flugvirkjafélags Íslands, sem kom fram á mbl.is í síðustu viku. Í gagnrýninni fólst að launaútreikningar SA væru rangir. „Ég hef áður sagt að við tök­um ekki þátt í svona leðjuslag, ég stend bara við það,“ sagði Maríus.

„Það er mjög einfalt  hvernig þessar samanburðartölur eru unnar. Það er gert með nákvæmlega sama hætti og aðilar vinnumarkaðarins unnu í sameiningu í aðdraganda kjarasamninga. Við tökum launasamanburð einstakra hópa, allt frá 2006, þar sem að niðurstaðan var að launaþróun á almennum vinnumarkaði hafi verið 51% á þessu tímabili, sem er þá frá nóvember 2006 til maí 2013,“ segir Þorsteinn.

Hann bætir við: „Sú úttekt var byggð á nákvæmlega sömu aðferðafræði og launavísitala hagstofunnar er reiknuð út frá. Það er paraður samanburður, það er verið að bera saman launaþróun sömu einstaklinga yfir allt tímabilið, hver var launaþróun þessara einstaklinga. Það er hin viðurkennda aðferðafræði við útreikning á launavísitölu.“

Hann segir að þetta hafi verið gert með sama hætti og í tilfelli flugvirkja. Notuð hafi verið þau gögn sem Icelandair hafði veitt og þau send til Hagstofunnar til útreiknings á launavísitölu sem snýr að flugvirkjum.

Sama aðferð notuð við útreikning hjá öllum starfsstéttum

„Þetta er nákvæmlega sama aðferð og við höfum notað gagnvart öllum öðrum starfsstéttum og nákvæmlega sama aðferð og við notuðum gagnvart vinnumarkaði í heild og er óumdeild aðferðafræði. Við höfum heyrt gagnrýni þeirra á þetta en ekki séð neina útlistun á annarri launaþróun en þarna er dregin upp. Ef að það sem þeir benda á er rangt, þá á það sama við um útreikninga fyrir alla aðra hópa sem og launavísitöluna í heild,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert