Drónar eru ótryggðir

Drónar eru ekki inn í venjulegum tryggingum og ef þeir …
Drónar eru ekki inn í venjulegum tryggingum og ef þeir valda tjóni getur skaðabótaskylda skapast beint á eiganda eða stjórnanda tækisins. AFP

Ómönnuð loftför, eða drónar, hafa að undanförnu notið aukinna vinsælda hér á landi og þeir voru t.d. margir sem tóku myndir af brunanum í gær með slíkum tækjum. Þá eru drónar orðnir algeng sjón á tjaldsvæðum og sumarhúsabyggðum og oft eru þeir því fljúgandi nálægt fólki. Drónar eru þó alla jafna undanþegnir venjulegum tryggingum og aðeins eitt félag býður í dag upp á sérstakar drónatryggingar. Að öðru leyti er það stjórnandi sem ber ábyrgð af því tjóni sem tækið getur valdið.

Heimilis- og frístundatryggingar hér á landi undanskilja tjón sem eigendur eða stjórnendur loftfara valda. Í dag hafa ekki verið settar neinar sérstakar reglur sem skilgreina dróna á annan hátt en venjuleg loftför og því eru þeir ekki með í heimilistryggingum.

Þetta veldur því að ef dróni skemmir bíla eða fólk eða veldur tjóni á annan hátt þarf stjórnandinn að öllu jöfnu að bæta tjónið úr eigin vasa. Í svari VÍS við fyrirspurn mbl.is kom reyndar fram að tryggingafélagið byði sérstaka tryggingu fyrir svona tæki og kostar hún sex þúsund krónur. Önnur félög svöruðu því til að verið væri að skoða þennan málaflokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert