Deilt um framferði Subway

Arnaldur Halldórsson

„Það sem er sárast við þetta er ekki upphæðin sem þau missa á tímann heldur það sem er verið að kenna börnunum okkar, er þau stíga sín fyrstu skref út á atvinnumarkaðinn, að þetta sé í lagi að svíkja samninga. Þá spyr maður sig hverskonar skilaboð er verið að gefa þeim,“ segir Hermann Valsson, en hann telur að skyndibitakeðjan Subway hafi hlunnfarið dóttur hans um laun síðustu  þrjú ár.

Dóttir Hermanns, Alexandra, starfaði hjá Subway og var á jafnaðarkaupi í stað dagvinnutaxta. Hermann telur að með þessu hafi verið brotið á rétti dóttur hans. Gunnar Birgisson, framkvæmdarstjóri Stjörnunnar ehf, sem er leyfishafi Subway á Íslandi, segir að launakerfi fyrirtækisins verði allt endurskoðað í haust. Ekki telur fyrirtækið þó að brotið hafi verið á stúlkunni. 

Síðustu vikur hefur Hermann fundað með Subway, Samtökum Atvinnulífsins og Eflingu um laun dóttur sinnar án árangurs.

„Ég hef krafist þess að fá tímaskýrslur hennar síðustu þrjú ár en þeir neita af afhenda þau. Þeir hafa eiginlega bara sagt mér að stefna sér. Sem ég geri náttúrulega ekki,“ segir Hermann sem telur að 400-600 starfsmenn Subway séu í sömu stöðu og dóttir sín.

Alltaf litið á Subway sem gott fyrirtæki

Að sögn Hermanns hefur hann alltaf litið á Subway sem gott fyrirtæki. „Fyrsta orðið sem kom upp þegar ég hugsaði um Subway var alltaf traust. Það auglýsir góðan mat, góða umgengni, borga á réttum tíma og hafa alltaf verið á sömu kennitölu, semsagt bara flott fyrirtæki. En síðan gerir það svona.“

Hermann nálgaðist gögn hjá Ríkisskattstjóra sem sýnir ársreikninga Subway. Þar sá hann mikinn hagnað og fannst honum sárt að dóttir hans hafi verið hlunnfarin hjá svona vel stöddu fyrirtæki. 

„Þeir vilja aðeins afhenda mér tímaskráningar síðustu þriggja mánaða þannig hægt sé að reikna út hvað hún á að fá réttilega. En hvað með allt sem hún hefur misst síðustu þrjú ár? Það kemur ekki til greina hjá þeim að sýna mér það,“ segir Hermann. 

Dóttir Hermanns var sátt í starfi sínu hjá Subway, en þar starfaði hún með skóla á kvöldin og um helgar. Hún hafi þó áttað sig á misferli í launum sínum fyrir um tveimur mánuðum og starfar ekki lengur á Subway. Að sögn Hermanns var hún með um 1500 til 1700 krónur á tímann. 

Nú er dóttir Hermanns hætt störfum hjá Subway og vinnur nú hjá N1. Að sögn Hermanns eru öll mál þar á hreinu og ekki notast við jafnaðarkaup. 

„Mér finnst frábært og yndislegt að Subway sé að skila svona góðum hagnaði. Ég hef ekkert á móti því, enda vel rekið fyrirtæki. En það að laun barnanna okkar skuli bera uppi þennan hagnað, það er ekki hægt.“

Sárt að vera dreginn inn í umræðuna

Gunnar Birgisson, framkvæmdarstjóri Stjörnunar ehf, sem er leyfishafi Subway á Íslandi, segir það mjög sárt fyrir fyrirtækið að vera dregið inn í umræðu um launamál ungmenna. „Við erum dregin inn í umræðu með veitingahúsum sem þekkt eru fyrir kennitöluflakk, orlofssvik og fleira. Það er mjög sárt fyrir 20 ára gamalt fyrirtæki sem hefur alltaf staðið í skilum.“

Aðspurður um mál Hermanns og dóttur hans segist Gunnar þekkja málið og að Hermann hafi komið á fund nýverið „Jafnaðarkaup er nú ekki umdeildara en svo að Efling blessar jafnaðarkaup í vinnustaðasamningum sínum. Við erum að bjóða upp á launataxta þar sem greitt er sambærilegt eða hærra en vinnustaðasamningar Eflingar sem við höfum til viðmiðunar kveða uppá.

Subway græðir ekki á jafnaðarkaupi

Að sögn Gunnars er það misskilningur að Subway hagnist á því að hafa starfsfólk sitt á jafnaðarkaupi. „Við spörum ekkert á þessu en þar sem að við erum með 350 manns á launaskrá eru alltaf einhverjir sem ná ekki að jafna þetta út geta ekki tekið dagvaktir. Þá skapast óánægja og það þarf ekki marga til þess að eitthvað þurfi að gera.“ Samkvæmt upplýsingum frá Stjörnunni ehf er um  75-80% starfsmanna Subway í dagvinnu og á launataxa sem er hærri en dagvinnutaxti Eflingar. Því má segja að Subway borgi hærri laun en ef fyrirtækið myndi fylgja venjulegum töxtum Eflingar.

„Það má segja að allir þeir sem vinna hjá okkur í nánast fullri vinnu eru að fá hærra kaup en kjarasamningar Eflingar kveða á. Þar sem þeir hafa verið að gera svona samninga sem eru nákvæmlega eins kemur gagnrýni Eflingar undanfarna daga á okkur mjög undarlega fyrir sjónir.

Þar sem að Subway borgar dagvinnufólki sínu umfram venjulegan taxta hefur lítill hluti starfsmanna sem starfar eingöngu á kvöldin eða um helgar að einhverju leyti fallið á milli launaflokka. „Við ætlum okkur að breyta þessu fyrirkomulagi sem er að vissu leyti barn síns tíma og var komið á til að einfalda launavinnslu. Það hefur þó aldrei verið okkar skilningur að við værum að brjóta á einhverjum með þessi fyrirkomulagi enda hefur fyrirtækið ekkert hagnast á þessu fyrirkomulagi og bendir á að fyrirtækið greiddi um 670 milljónir í laun- og launatengd gjöld á árinu 2013 og hefur verið eftirsóttur vinnuveitandi í gegnum árin,“ segir Gunnar

Launakerfið endurskipulagt í haust

Í vor tóku nýir stjórnendur við Stjörnunni ehf og hafa þeir verið að endurskoða launakerfi fyrirtækisins. Gunnar bendir þó á að það hafi verið að frumkvæði Stjörnunnar en ekki  Eflingar að endurskoða launafyrirkomulag  fólksins. „Þetta kom ekki frá Eflingu heldur okkur. Við viljum hafa okkar starfsmenn ánægða og sátta í starfi það er algjört lykilatriði. Það skiptir máli fyrir okkur og viðskiptavinina.“

Þann 1. október stendur til að breyta núverandi fyrirkomulagi og verður greitt í samræmi við dagvinnutaxta Eflingar eða viðeigandi stéttarfélags í stað jafnaðarkaups.  Launakjör þeirra sem starfa eingöngu á dagvöktum verða skoðuð sérstaklega í ljósi þessarar breytingar þannig að þeir starfsmenn verði ekki fyrir kjaraskerðingu sem breytingin myndi ella þýða.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu geymir Subway ekki tíma­skýrsl­ur starfs­manna nema í þrjá mánuði og þess vegna hafi fyr­ir­tækið ekki getað látið Her­mann fá skýrsl­ur dótt­ur sinn­ar frá upp­hafi. 

Samkvæmt upplýsingum frá Stjörnunni tekur alltaf tíma að innleiða nýtt  launakerfi en að stefnt sé að því að það verði komið í gagnið 1. október.  Að sögn Gunnars geta allir starfsmann sem hafa eingöngu tekið kvöld- og helgarvaktir og þ.m. ekki getað jafnað út kaup sitt að fullu undanfarna mánuði óskað eftir að farið verði sérstaklega yfir það hvort tilefni sé til leiðréttingar ef þeir telja að um mismun sé að ræða út frá gildandi kjarasamningum eða sambærilegum vinnustaðasamningum sem Efling hefur samþykkt.

Aðspurður um mál Alexöndru segist Gunnar ekki vilja fjalla um málefni einstakra starfsmanna í fjölmiðlum en að mál allra verði skoðuð á jafnréttisgrundvelli. Hins vegar fái starfsmenn alltaf sendar rafrænt tímaskýrslur í hverjum mánuði og hafi þrjá mánuði til að gera athugasemdir við tímaskráninguna ef þeir telja eitthvað þarfnast leiðréttingar vegna misskráningar eða annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert