Aðstoðarmaður Hönnu Birnu ákærður

Gísli Freyr Valdórsson.
Gísli Freyr Valdórsson.

Ríkissaksóknari mun gefa út ákæru á hendur Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, vegna meðferðar persónuupplýsinga um hælisleitanda í lekamálinu svo kallaða.

Hanna Birna Kristjánsdóttir greinir sjálf frá þessu í yfirlýsingu. Hún hefur leyst Gísla Frey frá störfum og biðst sjálf undan þeim skyldum sínum er varða dóms- og lögreglumál. Í yfirlýsingunni segir að Gísli Freyr hafi fyrir stundu gert ráðherranum grein fyrir því að lögmaður hans hafi síðdegis í dag fengið upplýsingar um að ríkissaksóknari hyggist birta honum ákæru.

Þrátt fyrir að Gísli Freyr hafi ávallt haldið því fram gagnvart mér að hann sé með öllu saklaus af málinu og geri það enn, hef ég tekið þá ákvörðun að leysa hann nú þegar frá störfum á meðan málið er til meðferðar fyrir dómsstólum,“ segir Hanna Birna.

Ég hef að auki óskað eftir því við forsætisráðherra að þau málefni sem undir mig heyra og hafa með dómsstóla og ákæruvald að gera færist til annars ráðherra í ríkisstjórn á meðan dómsmál á hendur Gísla Frey stendur yfir, enda tel ég mikilvægt að friður skapist um fjölmörg mikilvæg verkefni innanríkisráðuneytisins.“

Grunaður um að hafa lekið minnisblaði

Hanna Birna réði Gísla Frey sem aðstoðarmann sinn fyrir rúmu ári síðan, í ágúst 2013. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði áður sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Embætti ríkissaksóknara barst í janúar kæra frá lögmanni Evelyn Glory Joseph, m.a. fyrir ærumeiðingar, brot á þagnarskyldu og ranglæti við úrlausn máls, vegna meðferðar á persónuupplýsingum um hælisleitanda. Í kjölfarið óskaði Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari eftir upplýsingum frá ráðuneytinu. Var m.a. óskað eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði ritað minnisblöð um málið.

7. febrúar greindi ríkissaksóknari svo frá því að kæra hefði verið send lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem hóf þá rannsókn. 20. júní lauk lögreglurannsókn og niðurstöðunni vísað til ríkissaksóknara, sem ákærir nú Gísla Frey.

Hanna Birna hefur sjálf alla tíð neitað því að vita hvernig málið er tilkomið. Hið óformlega minnisblað, eða samantekt, sem um ræðir var ekki unnið að hennar ósk, samkvæmt svari hennar við fyrirspurn á Alþingi í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert