„Ég hef ekki gert neitt rangt“

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég hef ekki gert neitt rangt,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sem var gestur í þættinum Ísland í dag á Stöð 2, er hún var spurð hvort hún íhugaði að segja af sér í tengslum við lekamálið.

Hún segir að aðrir möguleikar séu í boði heldur en að segja af sér embætti. „Það á eiginlega aldrei að vera þannig að stjórnmálamaður velti fyrir sér að segja af sér embætti ef hann hefur ekki gert neitt rangt, og ég hef ekki gert neitt rangt,“ sagði Hanna Birna.

Hún viðurkenndi að hún hefði gert mörg póltísk mistök í málinu en „ég hef ekki brotið af mér með neinum hætti. Ég hef ekki gert neitt sem samviska mín segir mér að ég hafi gert rangt,“ sagði hún.

Í pólitísku samhengi hefði hún gert margt öðruvísi hefði hún vita hvernig málið myndi liggja.

„Ég er auðvitað líka í þeirri stöðu, og stjórnkerfið allt, og fyrrverandi lögreglustjóri líka, að um svona hluti, þ.e. kæru á ráðuneyti og ráðherra eru engar verklagsreglur til. Við erum einhvernveginn að bregðast við í umhverfi sem er okkur dálítið ókunnugt en mun verða okkur kunnugra þegar lengra líður. Þetta er bara alþjóðleg þróun,“ sagði hún.

Spurð hvort hún muni klára þetta kjörtímabil sagði Hanna Birna: „Ég er ekki búin að taka ákvörðun um það,“ og bætti við að hún myndi ekki segja af sér embætti sem ráðherra í miðju moldviðri, líkt og hún sagði um þá orðræðu sem hefur átt sér stað í kringum málið.

Hanna Birna var einnig gestur í Kastljósþætti kvöldsins. 

Þar sagði hún m.a., að hún hefði aldrei reynt að hafa áhrif á rannsókn lekamálsins. Hún sagði að Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hefði sagt það sjálfur að rannsóknin hefði gengið eðlilega fyrir sig. Sama hafi ríkissaksóknari sagt. 

„Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að ég hafi beitt einhverjum hótunum [gagnvart Stefáni],“ sagði Hanna Birna í þættinum.

„Stefán hefur sjálfur ítrekað sagt það að það hefur enginn beitt hann þrýstingi í þessari rannsókn. Hann hefur ítrekað sagt að það hafi ekki neitt átt sér stað óeðlilegt, en við tókum samtal um það að okkur þætti þetta óþægilegt. Og þegar ég segi þetta, þá er ég að vísa til þess að það er nauðsynlegt - og ég hef sagt það opinberlega - fyrir stjórnarráðið, fyrir stjórnkerfið í heild sinni, að fara yfir þessa rannsókn og velta því fyrir sér hvað mun gera þegar þessi staða sem kom upp. Ég vildi óska að það hefðu verið til einhverjar verklagsreglur um það hvernig stjórnarráðið bregst við. Ég bað Stefán aldrei um neina greiða í þessu samhengi með neinum hætti,“ sagði Hanna Birna.

Hún segir að lögreglan hafi fengið öll gögn sem hún bað um í tengslum við rannsóknina. Það eina sem ráðuneytið hafi óskað eftir var að trúnaður væri um gögnin.

Aðspurð segir hún rangt að hún hafi beðið um að lögreglan flýtti yfirheyrslu yfir Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu.

Spurð hvort staða hennar hafi veikst í tengslum við lekamálið, segir Hanna Birna: „Ég held að í öllu þessu ferli hafi staða mín í stjórnmálum orðið erfiðari. Ekki bara vegna þess að það er eitthvað pólítískt erfitt við þetta allt saman, heldur er þetta persónulega erfitt,“ sagði hún.

„Mér finnst menn nálgast þetta [mál] með fyrirfram gefinni niðurstöðu og mér finnst menn ekki leyfa málunum að klárast og það hefur verið hin erfiða pólitíska og persónulega barátta í þessu máli,“ sagði Hanna Birna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert