Stjórnarandstaðan bíði niðurstöðu umboðsmanns

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að lekamálið sé nú komið „handan við mörk hinnar pólitísku umræðu“ og því sé mikilvægt að menn treysti réttarkerfinu og opinberum eftirlitsaðilum fyrir réttum framgangi málsins. „Stjórnmálin mega ekki trufla þann framgang.“

Þetta skrifar Árni Páll á Facebook-síðu sína. Þar tekur hann fram að hann hafi mánuðum saman bent á að viðbrögð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við lekamálinu bæru þess ekki merki að hún áttaði sig á alvöru málsins. Atburðir dagsins sýndu fram á réttmæti þeirra orða.

„Til viðbótar við lekamálið sjálft er nú komið til rannsóknar annað mál er varðar afskipti innanríkisráðherra af lögreglurannsókn, sem beinist að henni sjálfri og pólitískum aðstoðarmönnum sem hún ber beina ábyrgð á. Slíkt felur í sér misbeitingu opinbers valds og brýtur gegn hæfisreglum stjórnsýsluréttar, eins og ég hef áður bent á.

Eins og það sé ekki nóg hefur umboðsmaður Alþingis í bréfi til ráðherra vísað í 2. mgr. 12. gr. laga um umboðsmann Alþingis, sem segir að ef umboðsmaður verði áskynja stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds geti hann gefið Alþingi sérstaka skýrslu um málið. Ég man ekki til þess að umboðsmaður hafi áður vísað til þessarar greinar í athugasemdum við embættisfærslur ráðherra,“ skrifar Árni Páll.

„Þetta mál er nú komið handan við mörk hinnar pólitísku umræðu og mikilvægt að við treystum réttarkerfinu og opinberum eftirlitsaðilum fyrir réttum framgangi málsins. Stjórnmálin mega ekki trufla þann framgang, enda ekki um neins konar pólitískan leik að ræða í þessu máli. Við í stjórnarandstöðunni hljótum því að bíða niðurstöðu umboðsmanns. Í millitíðinni er mál ráðherrans í höndum þess meirihluta sem hún styðst við á Alþingi,“ skrifar hann enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert