Sigmundur Davíð fer með dómsmál

„Við höfum tekið þá ákvörðun að koma á fót embætti dómsmálaráðherra innan innanríkisráðuneytisins sem forsætisráðherra mun taka að sér,“ sagði Bjarni Bendiktsson fjármálaráðherra eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra færi tímabundið með embættið þar til stofnað yrði á ný sérstakt ráðuneyti dómsmála. 

Þessi breyting kemur í kjölfar þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra óskaði eftir því að dómsmálahluti innanríkisráðuneytisins yrði færður í hendur annars ráðherra eftir að annar aðstoðarmaður hennar var ákærður vegna lekamálsins svokallaðs. Eðlilegt væri að slíkur aðskilnaður ætti sér stað á meðan málið væri í gangi í kerfinu. Þetta væri að sama skapi fyrsta skrefið að því að setja dómsmálin á ný í sérstakt ráðuneyti.

„Eins og menn munu sjá þá erum við ekkert síður með þessu að stíga fyrsta skerfið í átt að því að endurreisa sjálft dómsmálaráðuneytið og það er liður í stærri ákvörðun sem tengist ekki málinu beint,“ sagði hann. Spurður hvort Framsóknarflokkurinn gerði kröfu um að fá dómsmálin sagði Bjarni að um væri að ræða skammtímaráðstöfun að forsætisráðherra tæki við málaflokknum. 

„Síðan í kjölfarið verður þetta skoðað í stærra samhengi og rætt á Alþingi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert