„Eigum við að treysta þessu liði?“

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. mbl.is/Styrmir Kári

„Pólitíkin er hráskinnaleikur og þegar fólk gefur færi á sér þá opnast sóknarfæri fyrir þá sem eru keppinautar í pólitíkinni,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra.

Hanna Birna sendi frá sér yfirlýsingu í gær í kjölfar bréfs sem umboðsmaður Alþing­is sendi henni á mánudag. Þar lýs­ir ráðherra yfir undr­un með vinnu­brögð umboðsmanns í leka­mál­inu og ít­rek­ar að hún hafi eng­an beitt óeðli­leg­um þrýs­ingi við rann­sókn máls­ins. Í kjölfarið kom hún fram í viðtölum í Ísland í dag og Kastljósi í gærkvöldi og lýsti yfir sakleysi sínu í málinu.

Stefanía segir það velta á sjónarmiðum fólks hvernig staða ráðherra sé nú. „Maður sér að það eru mjög skiptar skoðanir; sumir halda því fram að þetta séu ofsóknir og nornaveiðar en aðrir eru á þveröfugu máli,“ segir hún.

Stefanía telur Hönnu Birnu hafa gert mistök í upphafi árs með því að fara í afgerandi vörn fyrir ráðuneytið og aðstoðarmennina. „Á einhverjum stigum málsins hefði verið klókara pólitískt að fjarlægja sig málinu með því að losa sig við einn eða báða aðstoðarmennina. Ekki vegna þess að þeir væru sekir um einhvern glæp, heldur bara til þess að fá meiri ró á málið og einnig senda út þau skilaboð að það sé mikilvægt að viðhalda trúverðugleika og að það sé friður um starfsemi ráðuneytisins,“ segir hún.

Segir Hönnu Birnu grafa undan trúverðugleika lögreglu

„Hún segir sig frá dómsmálum fullseint þar sem rannsókn málsins er lokið og það komið til dómstóla,“ segir Stefanía, en hún telur Hönnu Birnu hafa átt að segja af sér þegar ákæra á hendur aðstoðarmanni hennar kom á borðið. „Það er ekki endilega viðurkenning á sök, heldur bara til þess að skapa frið um þetta ráðuneyti og ekki ganga lengra í því að grafa undan trúverðugleika lögreglunnar og dómskerfisins sem mér finnst hún svolítið vera að gera,“ segir hún.

Stefanía segir Hönnu Birnu hafa gefið það í skyn að það sé mikið að því hvernig lögreglan, ríkissaksóknari og umboðsmaður Alþingis starfa. „Mér finnst þetta orðið dálítið alvarlegt þegar innanríkisráðherra er farin að ganga svo langt að hún segist ekki treysta lögreglunni, ríkissaksóknara og umboðsmanni. Hvað með almenning í landinu, eigum við að treysta þessu liði?“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert