Sakar stjórnarmenn DV um fjárdrátt

Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV, og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV, og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. mbl.is/Ómar

„Hvað ætli ritstjórinn gerði á fréttafundi, ef einhver blaðamaður hjá honum vildi skrifa frétt um þessi vanskil? Segja frá fjárdrætti framkvæmdastjórans og annarra stjórnarmanna fjölmiðilsins, þ.á.m. ritstjórans?“ segir Sigurður G. Guðjónsson lögmaður í pistli um átökin á DV.

Sigurður veltir upp nokkrum spurningum í pistli sínum og spyr meðal annars hvort það sé víst að ritstjón njóti sjálfstæðis þegar ritstjóri fjölmiðils sé stjórnarmaður í félaginu, sem fjölmiðillinn rekur, og ritstjórinn sé auk þess skráður fyrir miklu hlutfé í félaginu og skuldi það allt.

„Nýtur ritstjórn fjölmiðils sjálfstæðis frá eigendum sínum þegar fyrir liggur að fjölmiðilinn hefur ekki staðið opinberum aðilum skil á vörslusköttum og ritstjórinn veit það vegna stjórnarsetu sinnar?

Nýtur ritstjórn fjölmiðils sjálfstæðis frá eigendum sínum þegar fyrir liggur að ritstjórinn veit um skuldir fjölmiðilsins við lífeyrissjóði og að félagið sem hann tekur þátt í að stýra hefur ekki skilað til lífeyrissjóða starfsmanna þeim fjármunum, sem af launum þeirra hefur verið dregið og á að vera búið að skila?

Hvaða stefnu á ritstjórn fjölmiðils í þessari stöðu að taka? Hefði önnur fyrirtæki í sömu stöðu ekki lent á forsíðu blaðsins? Gerðar um þau miklar fréttaskýringar? Jafnvel aftur og aftur og aftur?

Vill stjórnarmaðurinn og ritstjórinn fjalla um þessi málefni eigin fjölmiðils á opinberum vettvangi? Hvað ætli ritstjórinn gerði á fréttafundi, ef einhver blaðamaður hjá honum vildi skrifa frétt um þessi vanskil? Segja frá fjárdrætti framkvæmdastjórans og annarra stjórnarmanna fjölmiðilsins, þ.á.m. ritstjórans?

Yrði það forsíðufrétt fjölmiðilsins með mynd af stjórnamönnum og ritstjóra, eins og tíðkast hefur þegar aðrir aðilar í rekstri hafa lent í svipuðum hremmingum?

Eða giltu allt önnur lögmál um fjölmiðlaeigandann Reyni Traustason?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert